149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

299. mál
[16:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þetta voru áhugaverð svör sem komu fram hjá heilbrigðisráðherra áðan. Það er áhugavert að heyra að gjaldinu sé ætlað að brúa bilið á milli raunkostnaðar við að standa undir vísindasiðanefnd og þess sem nefndin fær á fjárlögum. Með öðrum orðum er verið að færa ákveðinn kostnað frá rannsóknarstyrkjum til vísindasiðanefndar. Í raun og veru þýðir það samdrátt til rannsóknarstyrkja. Það þýðir í raun ekkert annað. Þeir rannsakendur sem vinna að rannsóknum sínum gera það yfirleitt á ákveðnum styrkjum í gegnum hina ýmsu aðila og þeir peningar sem þeir geta ekki notað til rannsóknanna gera rannsóknina umfangsminni fyrir vikið. Ef þeir þurfa að taka hluta af rannsóknarfé sínu til að standa að störfum vísindasiðanefndar minnkar það einfaldlega umfang og mögulega gæði rannsóknanna.

Hér eru settar fram tölur um áætlaða gjaldtöku og líka sagt að ákveða eigi gjaldskrá síðar, en það er greinilega búið að ákveða hana á einhvern hátt án þess að það sé sagt því að annars hefði ekki verið hægt að reikna þessar tölur.

Ég geri athugasemd við þetta misræmi, við ósamræmið í því að ríkið skuli á annað borð styrkja vísindarannsóknir en leggja til kostnað og samdrátt á þeim á sama tíma með því að draga það fé yfir til vísindasiðanefndar. Ég veit að sú nefnd sinnir ágætu starfi en á sama tíma sinnir hún að mínu mati, og miðað við þær sögur sem ég hef heyrt, umfangsmeira starfi en hún þyrfti að gera. Þar vísa ég í söguna, í ástæðu þess að vísindasiðanefndir urðu til í vísindasamfélaginu.

Það eru til mjög alvarleg dæmi sem gefa tvímælalaust til kynna nauðsyn vísindasiðanefndar en það eru líka rosalega margar rannsóknir sem snerta ekki á þeim ástæðum, þeim málefnum. Í skólanum þar sem ég stundaði nám þurfti ég að skila inn umsókn til vísindasiðanefndar. Það var ekki á heilbrigðissviði en skólinn ákvað samt að láta það gilda yfir öll svið skólans. Það var ákveðin innri gæðastjórnun skólans og allt gott og blessað með það. En spurningalistinn sem ég fékk var rosalega heilbrigðismiðaður, þrátt fyrir að námslánin mín kæmu óhjákvæmilega nánast aldrei að þeim málefnum. Ef ég notaði þann orðaforða sem ég kunni úr mínu námi, úr minni sérgrein, þýddi spurningalistinn allt annað þegar ég las hann yfir en ef ég hefði komið úr heilbrigðisvísindum.

En þetta er ýkt dæmi og hérna er náttúrlega aðeins talað um vísindasiðanefnd á heilbrigðissviði. Það eru samt margar rannsóknir innan heilbrigðisvísindasviðs sem ættu ekki að þurfa að vera á verksviði vísindasiðanefndar að athuga.

Mér finnst við hafa gert ákveðin mistök í setningu laganna um vísindasiðanefnd þegar kemur að nákvæmlega því. Umfang hennar var frá upphafi allt of mikið. Þess vegna legg ég til að farin sé hóflegri millileið. Velflestar rannsóknir þurfa ekki athugun á því hvort þar glímt er við þau viðkvæmu viðfangsefni sem vísindasiðanefndir voru stofnaðar til að vakta. Það ætti að vera hægt að fá ákveðna undanþágu að gefinni yfirlýsingu um að rannsóknirnar komi ekki inn á þau málefni.

Að öðru leyti held ég að bæði í andsvörum og svörum hafi allt komið fram. Mér finnst hins vegar gott að vekja athygli á því aftur að mér finnst vera ákveðið misræmi í greininni um að þetta eigi aðeins að standa undir raunkostnaði vegna þjónustunnar, sem það gerir ekki því að það er bara brúin þarna á milli. Þetta gerir það að verkum að hið opinbera getur dregið úr beinum styrkjum til vísindasiðanefndar og aukið gjaldtökuna á móti. Samkvæmt orðanna hljóðan er það þannig. Svo virðist í greinargerðinni sem það sé ekki nákvæmlega markmiðið að standa undir grunnkostnaði heldur að styrkja nefndina. Mér finnst vera pínu misræmi þarna sem mætti fara yfir og skýra.