149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

299. mál
[16:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Nokkur atriði í lok þessarar umræðu hér. Mig langar í fyrsta lagi að segja, af því að ég held að mér hafi láðst að nefna það áðan, að þegar við tölum um að styrkja starf nefndarinnar erum við að tala um að nefndin geti sinnt verkefnum sem hún hefur ekki haft ráðrúm til að sinna hingað til.

Mig langar líka til að nefna almennt, af því að við höfum kannski ekki verið mjög upptekin af því í þessari umræðu að ræða almennt mikilvægi vísindarannsókna á heilbrigðissviði, ekki síst í ljósi þess að það eru sífellt meira krefjandi viðfangsefni sem heilbrigðisþjónustan þarf að glíma við á öllum stigum, og sem betur fer eru sífellt skýrari kröfur um að gagnrýndar aðferðir séu lagðar til grundvallar við meðferð.

Mig langar líka að nefna, af því að mér fannst eins og hv. þingmaður væri ósáttur við ég hefði nefnt hérna reglugerðardrög, eins og að ég væri að segja frá einhverju sem væri bara víst búið að gera. En hv. þingmaður hristir hausinn þannig að ég vona að ég hafi einfaldlega verið að oftúlka orð hans. En ég held að það sé í ljósi þess rétt að geta þess hvernig nákvæmlega þetta ber að. Á sama tíma og við sendum vísindasiðanefnd frumvarpsdrögin til umsagnar sendum við reglugerðardrögin líka til nefndarinnar og óskum eftir rökstuddri tillögu að gjaldi fyrir tiltekna þrjá flokka. Vísindasiðanefnd leggur síðan til tilteknar fjárhæðir með vísan til umfangs þeirrar vinnu sem ætla má að fari fram í nefndinni á grundvelli talna frá undanförnum árum.

Það er ástæðan, virðulegur forseti, fyrir því að þetta er orðið allnokkuð mótað. Hins vegar verðum við í ljósi þess í hvaða röð á að gera hlutina að bíða með að setja reglugerðina í samráðsgáttina þangað til Alþingi hefur afgreitt frumvarpið og gert það að lögum, ef Alþingi kýs að gera svo. Það er ekki mikill bragur á því að framkvæmdarvaldið sé komið með reglugerð í samráðsgátt sem ekki hefur lagastoð.

Ég veit að ég og hv. þingmaður deilum sérstaklega áhuga á því að ferlum sé til haga haldið og að hlutirnir séu gerðir í réttri röð og vænti ég að mæta skilningi í þeirri nálgun minni í þeim efnum.

Hvað varðar síðan athugasemdir hv. þingmanns sem lúta að tilkomu vísindasiðanefndar í upphafi og því hversu breið eða þröng hún er til að byrja með og síðan hvaða verkefni hún fjallar um: Það varðar að hluta til fyrri tíð og snýst kannski ekki nákvæmlega um það þingmál sem hér er til umfjöllunar en er allrar athygli vert. Mín afstaða er sú að vísindi á heilbrigðissviði muni taka meira af tíma okkar, bæði í rannsóknum og vísindum, en ekki síður í stefnumótun í heilbrigðismálum. Við höfum horft til þess, og það verður í vaxandi mæli, að framfarir í tækni og vísindum verða jafnvel hraðari en siðferðisleg umræða hefur náð að halda í við. Þess vegna verðum við að freista þess að hafa líka siðferðisleg álitamál á dagskrá á Alþingi, og auðvitað ekki síður í vísindasamfélaginu.