149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

300. mál
[16:35]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar. Um er að ræða sambærilegar breytingar á öllum þeim lögum sem ég nefndi hér að framan og lúta þær að framlagi vinnumarkaðstengdra framfærslukerfa í lífeyrissjóði. Þess ber að geta að framangreindum framfærslukerfum er öllum ætlað að koma þátttakendum á vinnumarkaði til aðstoðar við framfærslu þurfi þeir að hverfa af vinnumarkaði tímabundið vegna tiltekinna aðstæðna. Á árinu 2016 gerðu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins með sér samkomulag um hækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Samkomulagið fól í sér að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði myndi hækka um 3,5% í þremur áföngum, þ.e. úr 8% í 11,5%.

Jafnframt var gert ráð fyrir að samkomulagið tæki að fullu gildi 1. júlí sl. og hefur það gengið eftir. Í lögum þar sem kveðið er á um vinnumarkaðstengd framfærslukerfi er gert ráð fyrir að greitt skuli í lífeyrissjóði tiltekið mótframlag úr hlutaðeigandi framfærslukerfi sem reiknast sem hlutfall af greiðslum til einstaklinga sem nýta rétt sinn innan viðkomandi kerfis. Þannig hefur þótt mikilvægt að þrátt fyrir að þátttakendur á vinnumarkaði þurfi að hverfa þaðan tímabundið og nýti rétt sinn til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði, Fæðingarorlofssjóði eða úr ríkissjóði greiði hlutaðeigandi framfærslukerfi tiltekið framlag í lífeyrissjóð á móti þeim 4% af greiðslum sem einstaklingnum sjálfum er gert að greiða. Aftur á móti hefur þótt mikilvægt, þegar kemur til greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa, að ábyrgð sjóðsins vegna krafna lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld skuli ná yfir það framlag sem hlutaðeigandi atvinnurekendum hefur borið að greiða í lífeyrissjóði, auk þess hluta af launum launafólks sem því sjálfu hefði borið að greiða hefði ekki komið til gjaldþrots hlutaðeigandi atvinnurekenda.

Markmið frumvarpsins er m.a. að draga úr neikvæðum áhrifum á ávinnslu lífeyrisréttinda hjá þeim einstaklingum sem nýta sér rétt sinn innan umræddra framfærslukerfa.

Tilgangur frumvarpsins er jafnframt að tryggja að ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa vegna krafna lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld nái yfir það framlag sem hlutaðeigandi atvinnurekendum hefði borið að greiða í lífeyrissjóði samkvæmt samkomulaginu, sem og yfir þann hluta af launum launafólks sem því sjálfu hefði borið að greiða í lífeyrissjóði hefði ekki komið til gjaldþrots hlutaðeigandi atvinnurekenda.

Er því gert ráð fyrir að mótframlag í lífeyrissjóði á grundvelli laga um Ábyrgðasjóð launa miðist við 15,5% af iðgjaldsstofni samkvæmt 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða í stað 12% lágmarksiðgjalds samkvæmt sömu lögum líkt og kveðið er á um í gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa.

Virðulegi forseti. Ég held að ég þurfi ekki að skýra þetta mál neitt miklu frekar vegna þess að þetta skýrir sig nokkuð sjálft. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.