149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[16:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð glöð við áskorun hv. þm. Loga Einarssonar og tek vel í þessa þingsályktunartillögu og lýsi yfir stuðningi mínum við hana og þakka honum fyrir framsögu sína í þessu máli. Ég vil koma hingað upp til að spyrja hann tveggja spurninga og skipti þeim bara á milli andsvara til að hafa þetta frekar þægilegt.

Í fyrsta lagi langar mig að spyrja um 1. lið þessarar þingsályktunartillögu, um startlán að norskri fyrirmynd, eins og hv. þingmaður ræddi í ræðu sinni. Ég vildi einfaldlega sækjast eftir nánari upplýsingum, í fyrsta lagi um það hversu mikill munur sé á vöxtum á almennum lánum og startlánum í þessari norsku fyrirmynd, svona um það bil. Svo langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér að það sé aðeins hægt að kaupa eignir upp að ákveðinni upphæð með slíkum startlánum og þá hver sú upphæð ætti að vera, bara um það bil, enn og aftur, og hvernig mætti heimfæra það upp á íslenskan veruleika.

Þannig að spurningin er: Sér hv. þingmaður fyrir sér að það mætti nota slík startlán til að kaupa sér tveggja herbergja íbúð í Breiðholti eða bara stærri íbúð í Vesturbænum? Hvernig myndi þetta heimfærast upp á þann markað sem við sjáum í dag? Ég byrja á því, norskum startlánum.