149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:01]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að fá þessa tillögu til umfjöllunar og ég þakka fyrir það. Ég tel mér hins vegar rétt og skylt að eiga orðastað við hv. 1. flm., hv. þm. Loga Einarsson. Ég er ekki alveg viss um að ég skrifi undir öll þau verkefni sem flutningsmenn telja nauðsynleg. Ég vil fá að vita af hverju þingflokkur Samfylkingarinnar tekur ekki eitt af þeim verkefnum og klárar það sjálfur. Ég lýsi því yfir að ég myndi leggja mig fram um að greiða því leið, ásamt hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd, sem er verkefni sex og er tiltölulega einfalt. Ef það er einhver meining í því hjá flutningsmönnum að fela ráðherra þetta verkefni er miklu einfaldara að þeir geri það bara sjálfir. Ég skil ekki af hverju þurftu að koma með fleiri tölustafi inn eða fleiri verkefni.

Þannig að ég spyr: Af hverju tekur þingflokkur Samfylkingarinnar sig ekki til og flytur þetta einfalda frumvarp? Fjármagnstekjuskattur af leiguhúsnæði er 50%, þ.e. 50% af leigutekjunum eru skattlagðar með 22%. Þetta er fyrri spurningin.

Vantar ekki líka eitt verkefni inn í þetta? Hér talað um að leggja ákveðnar skyldur á sveitarfélög varðandi félagslegt húsnæði, við skulum ræða það síðar. En hvað með skyldur sveitarfélaga til að tryggja nægilegt framboð af byggingarlóðum? Eru það ekki skyldur sem þurfa að vera inni í verkefninu, vegna þess að ef sveitarfélögin sinna (Forseti hringir.) ekki þeirri grunnskyldu sinni að tryggja nægjanlegt lóðaframboð skiptir engu máli hvað verður gert í þeim verkefnum.