149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir. Hann nefnir 6. liðinn og það er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að búa til sérstakt mál um það og við erum reyndar með sérstakt mál um einhverja hluti þarna. Hins vegar eru húsnæðismál með þeim hætti að þau eru ekki ólík til að mynda heilbrigðismálum þjóðarinnar eða menntamálum að því leyti að töluverður ávinningur er af því að þingið allt, óháð flokkum, setjist yfir málið, ræði það á heildstæðan hátt og nái samkomulagi um það til ára og áratuga. Þetta eru ekki átaksverkefni. Þetta eru ekki verkefni sem eru sett fram til að leysa hlutina einn, tveir og þrír. Það er ekki hægt. Við erum með gríðarlega stóran atvinnuveg sem er mjög brokkgengur. Sjálfur starfaði ég í honum í 25 ár og fór í gegnum fjórar kreppur í byggingariðnaði vegna þess að ýmist var verið að slá úr eða gefa í. Við eigum náttúrlega að geta náð mjög breiðri sátt í samfélaginu um alla vega meginhugsunina við húsnæðismál og íbúðauppbyggingu.

Hvað varðar skyldur lóðar býst ég við að það sé einhver leikur til að reyna að koma höggi á höfuðborgina, sem hefur reyndar staðið sig miklu betur í húsnæðismálum en öll sveitarfélögin í kring. Það er ekki til neins heldur að hafa fullt af tómum lóðum ef aldrei er neitt gert. (Gripið fram í: Vitleysa.) Það hefur verið byggt í Reykjavík. Þetta er mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar jafnvel þótt íbúafjöldinn sé reiknaður inn í það. Þetta er stærra uppbyggingarskeið en þegar menn réðust í uppbyggingu Breiðholts, við skulum hafa það á hreinu. Allar tilraunir til að reyna að koma Reykjavíkurborg illa í þeim umræðum eru misheppnaðar.