149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Kærar þakkir. Ég er ekki ósammála hv. þingmanni um allt. Ég held nefnilega að sveitarfélögin þurfi ekki að brjóta nýtt land til að byggja. Ég held að þau ættu einmitt að byggja þéttar. Í því felst mikil umhverfisvernd og það myndi reisa stoðir undir ágætisfyrirbæri sem er borgarlínan, sem ég veit að við hv. þingmaður styðjum bæði.

Þegar hv. þingmaður talar um spár um fjölda íbúða, annars vegar tölur sveitarfélaga og hins vegar tölur Íbúðalánasjóðs, held ég að það geti verið að hvorugur aðili hafi hitt á réttu töluna. Þó gleyma sveitarfélög oft að hugsa fyrir hvern þróunin er. Á Íslandi búa fleiri í hverri íbúð en annars staðar, bæði varð bakslag við hrunið þannig að ungt fólk býr lengur í foreldrahúsum og svo hefur þróunin verið hægari. Á Norðurlöndunum er þetta komið undir tvo á hverja íbúð á meðan við erum í tveimur til þremur. Þetta snýst ekki bara um fólksfjölgun, þetta snýst líka um nýjan lífsmáta.

Hvað varðar byggingarreglugerðina og skipulagsreglugerðir og deiliskipulag er oft innbyggður hvati til þess að byggja of stórt í þeim. Þú færð lóðir og borgar miðað við hámarksbyggingarmagn og það er líka tiltekinn fjöldi íbúða þannig að verktakinn freistast til þess að fylla út í þann fermetrafjölda til að fá sem mest út úr því. Í staðinn ætti það í rauninni að hvetja menn til að byggja sem mest án þess að slaka á gæðum og gefa markaðnum meira frelsi til þess að sjá um þá hluti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að við vitum að framleiðni hér er kannski 70% á við það sem hún er í Noregi, hvort hún telji að háir vextir og mikill fjármagnskostnaður, að teknu tilliti til þess hversu framleiðni er lítil á Íslandi, sé kannski stóra ástæðan fyrir því að byggingarkostnaður er of hár hérna.