149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og sérstaklega fyrir að gefa mér tækifæri til að ræða þéttingu byggðar. Ég komst ekki inn á hana í ræðu minni. Ég held að það sé að mörgu leyti mjög jákvætt að þétta byggð. En það er líka rosalega mikilvægt að í boði séu lóðir til þess að byggja bæði þétt innan byggðar og líka á nýju landi. Það er aukinn kostnað við að byggja þétt inni í borgum. Við sjáum það mjög greinilega í höfuðborginni og er það að sjálfsögðu viðurkennt.

Það er mikilvægt, sem ég tel reyndar að hafi verið töluvert um á síðustu árum, að líka sé í boði að fara inn á óbyggð svæði, inni í Hafnarfirði, inni í Mosfellsbæ og inni í Garðabæ, jafnframt því sem við þéttum byggð.

Þegar kemur að spánum kann vel að vera að hvorugur aðilinn hafi fullkomlega rétt fyrir sér í þeim efnum. En ég hygg að þær tölur sem hafa komið frá Íbúðalánasjóði séu ekki tölur um eftirspurn í eðli sínu. Það eru ákveðnar lýðfræðibreytur þar. Ég held ekki að allir þeir aðilar sem eru í spánni væru tilbúnir að koma inn á markaðinn og kaupa eða leigja. Þá væri hægt að færa rök fyrir því, alla vega eins og staðan er í dag. Ef hún breyttist með lækkun fasteignaverðs, myndi það breyta einhverju? Örugglega, en við horfum engu að síður fram á ákveðna lýðfræðibreytu. Hv. þingmaður kom einmitt inn á að við erum enn þá tiltölulega mörg í fjölskyldu, fleiri búa í hverri íbúð. Það er líka vegna þess, sem betur fer, að íslenskar konur eignast fleiri börn en konur í nágrannalöndunum, sem ég held reyndar að sé mjög mikilvægt fyrir okkur. Það þarf örugglega horfa til þess.

En þá skulum við líka horfa til þess að í dag er hér inni fjöldi íbúða sem er í Airbnb-kerfinu. Mikill skortur hefur verið á hótelum og gistirýmum og eflaust er verið að mæta þeirri þörf núna með þeim hótelum sem eru í uppbyggingu. Þá má telja mjög líklegt að íbúðirnar færist aftur í almenna leigu eða út úr Airbnb-kerfinu.

Ég verð að fá að koma vöxtum og fjármagnskostnaði á eftir.