149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:41]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í hefðbundið andsvar við samherja minn en í staðinn fyrir að skrá mig í aðra ræðu ákvað ég að nota þessa mínútu til að koma inn í umræðuna.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur að margt í efnahagslífinu hefur verið okkur hagkvæmt. Vextir á Íslandi hafa verið sögulega lágir og verðbólga sögulega lág, en við skulum samt halda til haga íbúðavöxtum annars staðar á Norðurlöndum. Þeir eru 0,89% í Danmörku, rúmlega 1% í Svíþjóð, held ég, og 1,8% í Noregi. Óverðtryggðir vextir á Íslandi hafa verið 6–7% og jafnvel við hin frábæru efnahagslegu skilyrði höfum við ekki tryggt þann mun. Það sem ég hef verið að benda á er að þetta er eitraður kokteill, lítil framleiðni og mikill fjármagnskostnaður. Þetta ættu Sjálfstæðismenn, sem telja sig þingmanna fremsta í efnahagsmálum og rekstri fyrirtækja, þótt það hafi svo sem getað birst í ólíkum myndun hjá einstökum þingmönnum, að skilja. Þrátt fyrir hið frábæra efnahagsástand sem við búum við núna er vaxtamunur milli okkar og hinna norrænu ríkja. — Fleira var það ekki.