149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:01]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi. Ég er reyndar ekki á því en ég mun kynna mér þetta betur og ég fylgdist vel með ræðunni. Ég veit að hv. þingmaður er vel að sér í tölvumálum og hennar fólk og eins er þingmaðurinn vel að sér í lögum og rétti. Við höfum miklar áhyggjur, eða ég og ég veit að það eru fleiri, af notkun internetsins í sambandi við sölu á fíkniefnum. Mig langar að spyrja þingmanninn hvernig við gætum komið böndum yfir það. Er ekki hægt að fara í þá vegferð að setja einhvers konar lög á þá starfsemi. Það er fljótlegra fyrir ungt fólk og þá sem vilja kaupa fíkniefni að panta sér fíkniefni í gegnum netið en að panta sér pítsu.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í þessar hugleiðingar því að ég efast ekki um að hv. þingmaður hefur hugleitt þessi mál líka. Þetta er reyndar ekki það sem verið er að tala um í þessu frumvarpi, en mér datt þetta bara í hug.