149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:05]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kannski er ég bara eins og Don Kíkóti, slæst við vindmyllur. En ég hef alveg heyrt að ekkert mál sé að koma upp annarri síðu og annað slíkt í þessum tölvuheimi og svo er líka verið að fjalla um þetta á einhverju tungumáli sem enginn skilur nema þeir sem eru að fjalla um akkúrat það einangraða mál að versla fíkniefni. Þetta er grafalvarlegt mál þó að maður geri grín að þessu hér í pontu, þetta er grafalvarlegt mál þessi heimur verslunar með ólögleg fíkniefni. Stundum hefur manni dottið í hug hvort ekki væri betur komið í þessum blessaða fíkniefnaheimi að þetta væri allt saman uppi á borðinu, en þá held ég að þjóðir heims yrðu að taka sig saman í því.

En ég vil þakka fyrir þetta svar. Þó að þingmaðurinn telji sig kunnáttuminnsta Píratann (ÞSÆ: Meðal.) — meðal, já, það er bara svo stutt síðan ég kunni að kveikja og slökkva á tölvu, það er erfitt að bera sig saman við það. En ég þakka fyrir þessi svör.