149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil einfaldlega koma hérna upp til þess að taka það fram að hv. þingmenn Pírata eru boðnir og búnir til að aðstoða hv. þingmenn Miðflokksins við að setja sig inn í heim internetsins og tölvunnar. Hafi þeir áhuga á því þá stendur það til boða og það af talsvert meiri kunnáttumönnum en mér veit ég líka. Ég vildi mjög gjarnan vera að ræða um stafrænt kynferðisofbeldi þannig að ég ætla að fara að snúa mér að því. En hvað það varðar að hafa allt uppi á borðum þá get ég ekki staðist tækifærið og minnst á að yfirlýst stefna Pírata er að afglæpavæða eigi neysluskammta vímuefna til að nálgast megi þetta heilsufarsvandamál á heildstæðari og gagnlegri hátt. Það er vísindalega sannað að skaðaminnkun og forvarnir virka mun betur í að minnka neyslu ungmenna á vímuefnum en nokkru sinni það að þau þurfi að hræðast hvern einasta lögreglumann sem þau sjá vegna þess að þau hafi óhreint mjöl í pokahorninu. Þetta hefur hver rannsóknin á fætur annarri sýnt. Nú höfum við séð tímamótaskýrslu frá Global Alliance on Drug Policy — afsakið, ég gleymi ávallt hvernig það er þýtt á íslensku. Það er mjög stór og viðamikil skýrsla frá nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna um að stríðið gegn fíkniefnum hafi einfaldlega tapast. Fórnarkostnaðurinn sé gríðarlega hár og tími sé kominn til þess að afglæpavæða þetta. Ég leyfi mér að loka þessari umræðu um allt annað en þetta frumvarp á því að segja: Afglæpavæðum neyslu á vímuefnum.