149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar að fara örfáum orðum um þetta ágæta mál sem er til umræðu. Báðir hv. þingmenn sem hér töluðu fóru vel yfir efni málsins og umræðurnar hafa verið góðar. Ég átti svo sem ekki von á öðru og trúi því að svo verði áfram.

Þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Við búum við þann veruleika að þegar hafa fallið hér á landi dómar í málum sem myndu heyra undir þetta frumvarp og lögin, verði þau að veruleika, þrátt fyrir að Alþingi hafi ekki skilgreint þetta hugtak í lögum eða sett í refsiramma. Það má segja að við séum að bregðast við áskorunum sem við stöndum frammi fyrir og höfum staðið frammi fyrir í nokkurn tíma. Það má líka alveg færa rök fyrir því að við séum svolítið sein.

Mig langar aðeins að velta fyrir mér 1. gr. frumvarpsins sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hver sem af ásetningi dreifir, birtir eða framleiðir mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans …“

Þetta er fyrri hluti setningarinnar. Ég held að við getum öll verið sammála um að um er að ræða ansi óæskilega hegðun í það minnsta, það sýna dæmin.

Svo má kannski segja að það valdi meiri ágreiningi sem á eftir kemur í setningunni, „skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 árum.“ Þetta bil, þessi setning, sýnir fyrst og fremst fjölbreytileika þeirra brotamöguleika sem fyrir hendi eru og frummælandi fór vel yfir, fjölbreytileika hvað varðar aldur þolenda og gerð þess myndefnis sem birt er.

Ég tek þennan refsiramma til umræðu vegna þess að ég hef heyrt að mönnum þyki heldur langt til seilst. En ef menn hafa í huga þann skaða sem það hefur valdið einstaklingum sem hafa orðið fyrir brotum af þessu tagi, þar sem jafnvel lífum hefur verið sóað, þá er gríðarlega mikið í húfi. Löggjafinn ber einfaldlega ábyrgð á því, hefur verk að vinna og hann hefur hagsmuna að gæta. Hann hefur hagsmuna þolenda að gæta og með þessari lagasetningu og umræðu og vinnu sinni hér hefur löggjafinn hagsmuna mögulegra þolenda að gæta. Þá erum við farin að tala um þorra almennings, hvorki meira né minna. Þótt að ýmsir enn málsmetandi menn hafi haldið því fram og séu þeirrar skoðunar að konur t.d. geti sjálfum sér um kennt fari óæskilegar myndir af þeim í dreifingu er fólk sem betur fer almennt með þroskaðri réttlætiskennd en svo og skilur alvarleika og mikilvægi málsins.

Við búum í stafrænum heimi. Við höfum um tvennt að velja. Annað er að knýja þorra fólks til að koma sér inn í einhvern ramma þar sem ekkert getur skaðað það og hitt er að löggjafinn bregðist við og gefi þau skilaboð frá sér hátt og skýrt að ákveðin tegund, þar með talin sú sem tilgreind er í frumvarpinu, séu ekki aðeins óæskileg heldur löglaus, lögbrot, og varði refsingu. Brotið er ekki þeim sem brotið er á að kenna heldur þeim sem brýtur.

Síðan erum við með alls konar útfærslur á því vegna þess að við erum rétt að dýfa tánum ofan í þann pott sem hinn stafræni heimur er. Það hefur verið komið vel inn á það hvernig við erum rétt að drepa á ákveðnum hlutum þar.

Skilgreiningin í lögum þarf ekki að vera flókin. Þetta er pólitísk ákvörðun um að veita slíku broti sess í lögunum. Ég hef ekki orðið vör við að það vanti beinlínis pólitískan vilja. Við þurfum að átta okkur á þeim nýja veruleika sem við stöndum frammi fyrir. Eins og ég sagði áðan erum við ekki í fararbroddi þar heldur erum við einna síðust til þess.

Ég er þeirrar skoðunar, þrátt fyrir að viðurkenna og átta mig algerlega á því að þetta dekkar ekki hinn stafræna heim, að engin ástæða sé til að tefja það að klára málið. Við erum með heildarskoðun í gangi og engin ástæða til að halda að þetta tefji þá heildarskoðun á nokkurn hátt. Það er hins vegar full ástæða til að halda því fram að þetta hjálpi til við slíkt og jafnvel þó að svo gerði ekki er tími til þess kominn að það verði skilgreint í lögum. Ég hlakka til frekari umræðu um málið.