149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Ég greindi í umsögn að verið væri að ýja að því að þingmenn gætu ekki vandað nægilega til verka við framlagningu þingmála eða frumvarpa, að á einhvern hátt væri gengið fram hjá réttarfarsnefnd, þetta væru almenn hegningarlög og þau lytu öðrum lögmálum en önnur lög. Ég verð að segja að ég er ósammála því, en það er bara mín skoðun. Ég held að við höfum alla burði til þess í þinginu að vinna þetta mál vel og vinna þingmannamálin oft betur en stjórnarmál sem koma á síðustu stundu inn í þingið. Réttarfarsnefnd og Dómarafélagið geta mjög auðveldlega skilað inn umsögnum þar sem þau koma með efnislegar athugasemdir við frumvarpið og segja reynslu sína út frá faglegu sjónarhorni, en höfundar frumvarpsins sömdu það auðvitað ekki í bakherbergi í kjallaranum heima hjá sér heldur studdust við bæði rannsóknir og upplýsingar frá fagfólki og fræðafólki. Svo eru líka sérfræðingar á nefndasviði sem aðstoða þingmenn.

Ég held að við ættum að forðast að gera lítið úr því mikilvæga hlutverki þingmanna að leggja fram þingmál og að fylgja eftir málum sem þingmenn brenna fyrir. Ég held að það sé mjög mikilvægur hluti af starfi okkar á þinginu að fara í svona vinnu og leggja fram mál sem við brennum fyrir.