149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það ber alls ekki að skilja orð mín þannig að ég vilji ekki standa vörð um þann rétt að hér séu lögð fram þingmannafrumvarp og ég átta mig á því hvað hv. þingmaður er að fara þegar hún vísar í umsögnina sem ég spurði út í frá Dómarafélaginu. Ég tek heils hugar undir að mjög mikilvægt er að þingmenn leggi fram frumvörp. Maður sér það vel á þessu frumvarpi og greinargerðinni að mikil vinna hefur verið lögð í það, enda er líka ljóst að þetta frumvarp hefur verið lagt fram í mismunandi myndum nokkrum sinnum og ég geri ráð fyrir að tekið hafi verið tillit til þeirra mikilvægu umsagna sem hafa komið fram um málið að töluverðu leyti. Ég segi fyrir mitt leyti að ég fagna því að við séum að ræða þetta mikilvæga mál. Ég vona að það fái góða þinglega meðferð og farið verði yfir alla þætti þess.

Ég efast ekki um að ég er tilbúin að styðja öll góð mál. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að taka á kynferðisafbrotum og stafrænt kynferðisafbrot fellur auðvitað þar undir.

Mig langar þó örstutt að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi varðandi eltihrellana. Við heyrum reglulega hræðilegar sögur af slíkum málum og stundum fórnar maður höndum og veltir fyrir sér hvað sé að lagaumhverfinu okkar. Eða er það framfylgni laganna eða hvað? Vegna þess að hv. þingmaður þekkir svona mál af mismunandi vettvangi væri áhugavert að heyra hvort hún telji að við þurfum að gera breytingar sem við höfum völd til að gera í lagabákninu eða hvort þetta snúist fyrst og fremst um framfylgni og eftirfylgni laganna.