149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er einn af þeim 24 þingmönnum sem flytja þetta mál og ég vil nýta tækifærið til að þakka 1. flutningsmanni það tækifæri að hjálpa til við framgang þessa tímabæra og mikilvæga þingmáls. Það sem er lagatæknilega áhugavert við þetta er að hér erum við með afbrot og þann hluta af lögunum sem er ekki tæknihlutlaus.

Fyrr í dag var fíkniefnasala rædd og það skiptir engu máli hvort fíkniefni eru seld í gegnum netið eða annars staðar. Sala fíkniefna er einfaldlega bönnuð þannig að ný tækni breytir engu þar um. Eins er með hegningarlögin, þar er megnið af glæpunum þess eðlis að það breytir engu þó að fram komi ný tækni við að deyða menn, manndráp er alltaf bannað með sama hætti, hvernig sem það er framkvæmt. Hér erum við með afbrot þar sem ný tækni og nýtt samfélagsmynstur eða nýir möguleikar fólks til að eiga í samskiptum hafa áhrif. Þá allt í einu myndaðist glufa í lögum sem við náum vonandi að fylla í með þessu frumvarpi.

Mig langar að nefna tvo hópa fólks sérstaklega. Í fyrsta lagi vil ég nefna ákærendur sem aðeins hefur verið minnst á í umræðunni. Ég held að það megi sérstaklega benda á og þakka fyrir þá hugkvæmni þeirra að hafa áttað sig á því að hægt væri að ákæra fyrir blygðunarsemisbrot, hægt væri að ákæra fyrir móðgun eða smánun gegn fyrrverandi maka eða hvað allar þessar skringilegu lagagreinar heita sem hafa nýst sem haldreipi þeirra sem verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi.

Þó að refsiramminn sé engan veginn fullnægjandi og þetta sé ekki nógu skýr refsiheimild hefur þetta þó verið skítamix sem dugði kannski fyrst um sinn en nú er kominn tími til þess að við setjum skýr ákvæði í lögin, sérstaklega varðandi stafrænt kynferðisofbeldi, bæði upp á það að refsiheimildir séu skýrar og að refsiramminn sé hæfilegur og líka til þess að uppfylla uppeldishlutverk laganna, til þess að öllum sé ljóst að þetta framferði er bannað. Það er ekkert víst að fólk sem elst upp við að sótt sé til saka fyrir stafrænt kynferðisofbeldi eftir einhverjum ákvæðum sem enginn veit hvað þýða sjái samasemmerkið á milli brotsins og refsingarinnar þannig að hér erum við virkilega að gera bragarbót.

Svo er hinn hópurinn sem er ekki hægt að nefna of oft í þessu samhengi og það eru ungu konurnar sem komu þessu máli á dagskrá. Þá er ég að tala um þolendur, vinkonur þolenda, þúsundir kvenna sem komu stafrænu kynferðisofbeldi út í dagsljósið vorið 2015 þegar þær fylktu sér saman undir merkjum #freethenipple og vöktu fleiri kynslóðir Íslendinga til meðvitundar um veruleika sem ný kynslóð kvenna býr við. Konur sem alast upp sem innfæddir netverjar sýndu þarna allt í einu glæp sem eldra fólk vissi ekki einu sinni að væri til. Þess vegna vantaði þetta í lögin, ekki bara vegna þess að þetta væri nýr glæpur heldur vegna þess að fólkið sem sér um lögin, fólkið sem vinnur í þessu húsi hér og setur lögin, vissi ekki að þetta væri að gerast.

Frú forseti. Þetta var fyrir næstum fjórum árum. Þegar við verðum búin að klára þessar úrbætur á lögum held ég að við megum aðeins velta fyrir okkur hvort sá langi viðbragðstími löggjafans við því sem sést svart á hvítu að er einföld breyting á hegningarlögum sé mögulega ástæða þess að fólk hefur ekki nógu mikla trú á stjórnmálastéttinni, á störfum löggjafarþingsins, á því að við sem berum ábyrgðina bregðumst við og gerum nauðsynlegar og mikilvægar úrbætur.

Ég held nefnilega, frú forseti, að sú kynslóð sem vakti okkur til umhugsunar um það samfélagsmein sem stafrænt kynferðisofbeldi er sé ansi hugsi yfir því hversu lengi kerfið hefur verið að hlusta og bregðast við. Það er kannski ekki síst þess vegna sem við verðum að fara að klára þetta mál. Það er mikilvægt, ekki bara í þágu þeirra þolenda sem fá með þessu réttarbætur heldur líka til þess að við sýnum að við stöndum undir lýðræðislegu hlutverki okkar.