149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:47]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem aðallega hingað upp til að þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á tvo mjög mikilvæga vinkla í þessari umræðu sem höfðu ekki komið fram nógu skýrt fram að þessu. Í fyrra lagi það að verknaðurinn sjálfur tengist þessari nýju tækni, þ.e. internetið og margmiðlunartæknin eru notuð til að fremja kynferðisbrot, og þess vegna er auðvitað þörf á nýju ákvæði til að taka á akkúrat því. Það hefur alls ekki komið nógu skýrt fram í umræðunni fram að þessu og ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir að benda á þetta.

Í síðara lagi vil ég sömuleiðis þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á #freethenipple, sem að sjálfsögðu hefði átt að minnast á, sem er ein stærsta kveikjan að því að við erum yfir höfuð meðvituð um alvarleika þessara brota og hversu útbreidd þau eru í raun og veru.

Hvað varðar lokaorð hv. þingmanns tek ég heils hugar undir að fjögur ár eru mjög langur tími til að bregðast við ákalli samfélagsins um nauðsynlegar breytingar til verndar friðhelgi og mannhelgi, sérstaklega ungu stelpnanna hér á landi. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort honum þyki ekki líka tilefni til þess að við í þessum sal, upp á að efla traust gagnvart þeirri vinnu sem við erum að reyna að vinna hér, finnum einhverja leið til að bæta þolendum upp þann skaða sem þeir hafa orðið fyrir vegna þess hve kerfið okkar er skelfilega lélegt í að vernda rétt þeirra? Þá er ég að tala um að réttarkerfið er svifaseint, það er oft illa tekið á móti þolendum og við höfum verið svifasein í því að taka á þessu. Er ekki kominn tími til að setja upp einhvers konar (Forseti hringir.) sannleiksnefnd kynferðisbrotamála og finna einhverja leið til þess að við í þessum sal getum beðið þetta fólk afsökunar og brugðist raunverulega við og bætt þeim upp skaðann?