149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta mál er lagt fram í þriðja sinn en það hefur tekið nokkrum breytingum í hvert einasta skipti. Eins og það var í fyrsta sinn sem það var lagt fram hefði það ekki átt að klárast. Eins og það var lagt fram á síðasta vetri hefði þurft að laga það nokkuð. Þær lagfæringar hafa verið gerðar nú milli þinga. Það frumvarp sem við höfum í höndunum í dag er besta útgáfa þessa máls sem þinginu hefur borist. Ég hef setið í allsherjar- og menntamálanefnd nú í tvö ár og fylgdist með umfjöllun um þetta mál síðasta skipti sem það var lagt fram. Ég get ekki sagt að nefndarmenn hafi verið neitt annað en samhentir í því að klára málið eða, skulum við segja, sammála um nauðsyn þess að gera þessar lagfæringar.

Eins og komið var inn á í umræðunum áðan komu fram kerfislægar mótbárur frá aðstandendum réttarfarsnefndar og Dómarafélaginu og slíkum aðilum sem hafa nokkra vigt í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég hefði hins vegar alveg viljað sjá það gerast að réttarfarsnefnd hefði einfaldlega fengið það hlutverk að skila konkret tillögum að breytingum á málinu til að það myndi rúmast innan þess sem hún sæi fyrir sér. Það er kannski sá annmarki á málsmeðferðinni sem hægt er að benda á, að réttarfarsnefnd sé gerð að einhverjum yfirfrakka á breytingar á hegningarlögum en þingmenn hafi enga aðkomu að þeirri nefnd til að fá sínum breytingum framgengt. Það mætti skoða hvort það þurfi ekki að laga.