149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[19:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir undrunartóninn hjá hv. þingmanni varðandi réttarfarsnefnd og þetta samspil. Eins og réttarfarsnefndin bregst við þessu er eins og hún telji sig ekki geta komið með umsögn eða tillögur að úrbótum af því að hún samdi ekki frumvarpið. Ég er algjörlega ósammála því og það er okkar vinna hér. Við fáum frumvörp, hvort sem er stjórnarfrumvörp eða þingmannafrumvörp, sem eru ekki fullkomin, sem eru ófullkomin. Sum hver eru ekki tilbúin, ekki rannsökuð með fullnægjandi hætti, hvorki frumvörp frá ráðuneytunum, sem eru stútfull af sérfræðingum, né frá þingmönnum. Svo fær málið þinglega meðferð og við köllum til okkar sérfræðinga og fagfólk og álitsgjafa jafnvel sem leiðbeina okkur til að snurfusa frumvörp. Það er auðvitað það sem við viljum gera og það er ekkert að því. Það er bara mjög gott af því að þegar á hólminn er komið eru það lögin sem gilda. Þeir sem vinna með lögin í dómskerfinu skoða hina þinglegu meðferð, skoða hvort hún tók breytingum, hvort frumvarp tók breytingum; líta á greinargerð með frumvarpi, líta á nefndarálit og allt eru það lögskýringargögn. Þannig að það er alveg fullnægjandi.

Spurningunni sem ég kom með hér áðan, um að við verðum að efla löggæsluna til að lögreglan geti rannsakað þessi brot, er erfitt fyrir þingmanninn að svara, því að hún var borin fram svo seint. Ég tók tvo dóma af handahófi sem ég sá á vefsíðu héraðsdómstólanna. Þar var verið að dæma nú í október í kynferðisbrotamáli þar sem verknaður átti sér stað 1. ágúst 2015 og hins vegar gagnvart barni eða börnum þar sem verknaður átti sér stað í janúar 2017. Það var verið að ljúka þessu máli í héraði núna og væntanlega fer það upp í Landsrétt. Þetta eru afleiðingar þess að lögreglan hefur verið algjörlega vannærð fjárhagslega. (Forseti hringir.) Það er grafalvarlegt mál og ég óska liðsinnis hv. þingmanns við breytingartillögur okkar í þingflokki Samfylkingar við fjárlagafrumvarpið sem við erum að fara að fjalla um í næstu viku en þar er tillaga til úrbóta.