149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[19:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski til fullmikils mælst að frumvörp komi fullkomin til þings, en það er hlutverk okkar, eins og þingmaðurinn nefnir, að slípa þau til og pússa þar til þau verða þess burðug að verða að lögum. Ég held að sá grunnur sem lagður er hér fram í frumvarpsformi sé til þess bær að fara inn í hegningarlög. Ég held, eins og ég nefndi í mínu fyrra svari, að þetta sé sú besta tilraun til að koma stafrænu kynferðisofbeldi inn í lagatexta sem komið hefur til meðferðar Alþingis. Þess vegna held ég að við ættum að einhenda okkur í að klára þetta mál. Ef réttarfarsnefnd er eitthvað stíf á því að hún verði að hafa eitthvað um það að segja þurfum við í allsherjar- og menntamálanefnd að vera dugleg við að fá hana til að leggja sitt af mörkum til þess að við náum að ljúka þessu. Ég, þekkjandi þá sem sitja með mér í þeirri nefnd, reikna með að þessu máli verði vel fyrir komið í okkar höndum.

Varðandi það að efla löggæslu þá tek ég heils hugar undir þau orð þingmannsins að mikilvægt sé að bæta fjármagni í löggæslu, sérstaklega varðandi meðferð kynferðisbrotamála. Það hefur alla vega í orði kveðnu verið stefna síðustu ár þó að reyndin hafi kannski ekki alltaf verið sú að viðbótarfjármagn til lögreglunnar skili sér í raunverulegri eflingu þjónustu hennar eða rannsóknargetu. Ég bara bíð eftir að sjá þessar tillögur Samfylkingarinnar til að geta tekið afstöðu til þeirra.