149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

26. mál
[19:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna í þessu mikilvæga máli og lýsi heils hugar yfir stuðningi mínum við framgang þess á þessu þingi. Mér finnst þetta vel unnið mál og ég held að það sé vel til þess fallið að komast í gegn á þessu þingi og mikilvægt að við vinnum saman að því.

Í gildandi lögum er nóg að raska friði eins og hv. þingmaður komst að orði og mig langar að spyrja hvað hún telji vera aðalástæðuna fyrir því að það hafi samt ekki verið nóg til að vernda hagsmuni brotaþola þótt lögin segi fyrir um það. Ég geri mér grein fyrir að hv. þingmaður minntist á að það sé ekki til nákvæm skilgreining á því hvað teljist vægari úrræði, en það hefði mátt færa líkur að því að það hefði verið hægt að bregðast fyrr við. Telur hv. þingmaður að það hafi verið einhvers konar tregða í kerfinu? Ég ætla svo sem ekki að telja upp ástæðurnar sem gætu verið fyrir þessu, en mig langar gjarnan að heyra hvað hv. þingmaður heldur að sé ástæðan fyrir því að réttarvörslukerfið hefur reynst jafn tregt og raun ber vitni til að bregðast við ógn við öryggi einstaklinga á Íslandi eins og þörfin á framlagningu þessa frumvarps sýnir fram á.