149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

26. mál
[19:26]
Horfa

Flm. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta. Fyrst varðandi viðbragðsgetu lögreglunnar sem hún kom inn á í lokin. Ég held að margt hafi nú þegar verið gert og sérstök áhersla hefur verið lögð innan lögreglunnar á heimilisofbeldi. Það að geta tryggt það að sakborningur sé í haldi á þeim tíma sem nálgunarbann er fengið er meðal þess þar sem viðbragðsgetan er brotaþola virkilega í hag, svo það þurfi ekki að flytja brotaþola af sínu heimili þegar verkefnið er auðvitað að flytja sakborning af heimili eða tryggja að hann sé ekki á sama stað. Það er auðvitað svolítið matskennt og misjafnt í dómaframkvæmdinni sem ég hef lesið talsvert yfir. Oft er auðvitað ekkert í boði að fara í nein vægari úrræði og strax eigi að nota nálgunarbann.

Ég tek undir með hv. þingmanni þegar kemur að almennri umræðu um vægari úrræði, þetta er eitthvað sem þarf að skoða. Ég veit að lögin sem slík í dag voru hugsuð til verndar brotaþola, en dómaframkvæmdin hefur kannski ekki alveg sýnt í verki hvernig við viljum að nálgunarbannið virki raunverulega. Það þarf of mikið til og við getum bara brugðist við á of vægan hátt, refsingar of vægar og sektarákvæði við því að brjóta ítrekað gegn nálgunarbanni eru einfaldlega of lág að mínu mati. Ég held að þar sé hægt að gefa lögreglu enn frekari tól með því að hvert brot tikki kannski meira inn, þetta sé ekki alltaf tekið saman í eitt mál.