149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

þingsköp Alþingis.

23. mál
[19:38]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðmjúk mæti ég fullklædd og skóuð í þennan ræðustól og fylgi þar með meginhefðinni um útbúnað almennt. Mér finnst þetta að mörgu leyti áhugavert mál og þakka 1. flutningsmanni fyrir að fara yfir það. Í greinargerðinni er farið yfir hvernig fyrirkomulagið er á þingum hinna Norðurlandanna, tilgreint hvernig er farið með þingmál þar, hverjir hafi rétt til að ávarpa þing o.s.frv. Einnig er farið yfir málin hér og ágætt að skoða það og sjá hvernig þetta er annars staðar í þeim málum.

Það eru ýmsar spurningar sem vakna. Til dæmis er tekið fram og flutningsmaður talar um það að nota eigi slembiúrtak við að fá fólk hingað inn til að ávarpa þingið. Gott og vel. Hvernig ætlum við að framkvæma það? Hvernig ætlum við að gæta jafnræðis? Það er eitt að búa uppi í Breiðholti og lenda í slembiúrtaki eða að búa norður á Kópaskeri eða austur á Djúpavogi.

Sitja þeir einstaklingar við sama borð? Hvernig ætlum við að mæta því? Hvernig ætlum við að mæta ferðakostnaði? Hvernig ætlum við að gera fólki auðvelt að mæta hingað? Getum við hugsanlega nýtt okkur einhverja tækni? Er það hægt? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt væri að leysa það mál svo að í sannleika sætu allir hér við sama borð hvað varðar aðgengi að þinginu? Við gætum þá uppfyllt áformin um að styrkja lýðræðislega virkni þingsins.