149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

þingsköp Alþingis.

23. mál
[19:40]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegu forseti. Þetta er vissulega frumkvæði og fordómalaust miðað við þá skoðun sem var gerð á þessu máli, hvort það væru fordæmi fyrir því annars staðar, en svo virðist ekki vera. Ég tel þetta vera mjög góða nálgun á því að gera starfið aðeins opnara og aðgengilegra. Ég tel að með slembivalinu, sem er í rauninni sanngjarnasta leiðin til að velja á milli í svona vali, geri fólki kleift að koma með ný andlit og nýjar raddir sem hafa ekki endilega farið hefðbundinn farveg stjórnmálanna. Hver veit hvers konar fjársjóð við getum fundið í slíku?

Varðandi jafnræði með tilliti til staðsetningar tek ég hjartanlega undir að það er visst vandamál. Ég hef ekki of miklar áhyggjur af því vegna þess að þetta eru ekki það margir í mánuði til að byrja með, þótt þeir mættu alveg vera fleiri mín vegna. Það ætti að vera mjög góður fyrirvari áður en fólk veit hvort það fær boð um að mæta eða ekki. Þar að auki væri þetta ekki svo rosalega stór hluti af því sem er nú þegar ferðakostnaður þingmanna og kannski hægt að taka tillit til, til þess að hjálpa til við ferðakostnað þessara aðila.

Ég treysti forsætisnefnd mjög vel til að útfæra hvernig væri best að standa að því í reglum forsætisnefndar um hvernig eigi að mæta mismunandi þörfum fólks héðan og þaðan af landinu til að gæta sem mests jafnræðis.