149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

þingsköp Alþingis.

23. mál
[19:45]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurningarnar kærlega. Er þetta sterkasta leiðin? Nei, líklega ekki. Það væri örugglega mun sterkara að ná því í gegn sem var í frumvarpi stjórnlagaráðs, t.d. um frumkvæðisrétt þjóðarinnar til að leggja fram þingsályktunartillögu eða mál á þingi eða bremsuna, að geta stöðvað mál. Þetta væri þó tvímælalaust leið, eins og hv. þingmaður nefndi, í anda þess að fylgja þingmanni og kynnast störfum þingsins nánar innan frá og á þann hátt eflir það tvímælalaust gagnsæið. Ég tel líka að það auki virðingu af því að fólk fær betri skilning á því hvernig allt virkar innan húss. Með betri skilningi og með því að sjá starfið betur skilur fólk kannski þau stríð sem stundum eru háð hérna og átti sig á því af hverju þau verða og hvernig og því um líkt. Þótt það sé oft ekki mjög málefnalegt er að vissu leyti hægt að öðlast skilning á því. Ef maður skilur eitthvað eða fær að sjá hvernig hlutirnir eru í raun, hvernig þeir hafa áhrif og mótáhrif, ber maður alla vega virðingu fyrir því ferli, af því að maður veit í alvörunni hvernig það virkar, ekki bara utan frá og ekki bara nokkurn veginn hvernig það virkar.

Varðandi að afmarka málefni líðandi stundar reyndi ég að koma því í gegn í ræðunni að afmörkunin ætti ekki að vera nein. Þegar fólk fær tækifæri, líklega í eina skiptið á ævinni fyrir langflesta, til að koma og tala í ræðustól þingsins í tvær mínútur, hvaða orð velur það? Velur fólk þau ekki mjög vandlega? Ég vil alla vega trúa því. Ég held að það að reyna að afmarka málefnið á einhvern hátt sé alls ekki til þess að auka gagnsæið og virðinguna o.s.frv.

Ég veit að allir hér innan húss, á skrifstofu og nefndasviði, eru boðnir og búnir til að hjálpa til við yfirlestur og ýmislegt annað sem hjálpar fólki sem kemur hingað að gera þessar tvær mínútur mjög áhrifaríkar. Við höfum séð (Forseti hringir.) tveggja mínútna ræður hjá fólki í störfum þingsins og annars staðar sem hafa haft mjög mikil áhrif hjá fólki.