149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Mig langar að fylgja eftir svari hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur um fæðingarorlof og heimabyggð fjarri fæðingarþjónustu. Í svarinu kemur fram að það standi til að skipa starfshóp sem fara á heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu á landsvísu og koma fram með tillögur að leiðum sem koma til móts við aðstæður þeirra og fjölskyldna þeirra, hvort sem er innan fæðingarorlofskerfisins eða með öðrum hætti.

Ég fagna þessu mjög og vona að vinnan fari sem fyrst af stað, sérstaklega þó að opnað verði á að horfa á aðstæður þessara fjölskyldna með víðtækari hætti en innan fæðingarorlofskerfisins. Það er mjög brýnt, hvaða leið svo sem farin verður, að stuðningur við þessar fjölskyldur rýri ekki rétt þeirra til fæðingarorlofs. Í mínum huga er það ekki lausn að verðandi foreldrar sem búa fjarri fæðingarþjónustu hefji töku fæðingarorlofs fyrir fæðingu barns til að geta framfleytt sér og sínum meðan beðið er fæðingar nýs fjölskyldumeðlims.

Nauðsynlegt er að starfshópurinn horfi einnig til maka verðandi mæðra sem fylgja konu sinni á fæðingarstað eða þurfa að breyta vinnu sinni til að hugsa um aðra fjölskyldumeðlimi vegna aðstæðna. Það er mjög íþyngjandi að makar missi tekjur eða þurfi að nýta orlof svo vikum skiptir á meðan beðið er fæðingar fjarri heimili. Biðin sjálf getur einnig orðið kostnaðarsöm þar sem ekki er sjálfgefið að hægt sé að bíða á heimili ættingja eða í gjaldfrjálsri orlofsíbúð verkalýðsfélags. Kortleggja þarf kostnað fjölskyldna sem þurfa að nýta fæðingarþjónustu fjarri heimabyggð og koma til móts við hann svo að jafnræðis sé gætt meðal fjölskyldna í landinu.