149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er einn af talsmönnum barna á þingi en allir þingflokkar hafa tilnefnt einn slíkan. Þetta er verkefni sem var sett á fót af UNICEF á Íslandi, af umboðsmanni barna og Barnaheillum. Hlutverk talsmanna barna er að hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í störfum sínum, sem er mjög auðvelt vegna þess að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er í lögum á Íslandi.

Ég ætlaði að koma upp í morgun í kjölfarið á því að ég var með óundirbúna fyrirspurn til hæstv. félags- og barnamálaráðherra Ásmunds Einars Daðasonar. Ég ætlaði að fara yfir bréf sem ég sendi á hann og á heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra í morgun. Hann greip mig svo í hliðarsalnum áðan og sagði mér að þau mál væru ekki á hans ábyrgð. Hann væri með barnaverndarmálin en barnamálin væru hjá dómsmálaráðherra. Ég þarf að skoða það betur.

Það er alveg ljóst að í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að það skuli vera í forgangi sem er börnum fyrir bestu. Það gildir einu hvort um er að ræða löggjafann, dómstóla eða framkvæmdarvaldið, við þurfum öll að gera það. Það eru lög í landinu sem segja það, barnasáttmálinn er í lögum.

Við sem þingmenn berum ábyrgð á því að hafa eftirlit með því að framkvæmdarvaldið framfylgi þeim lögum. Forseti útdeilir ábyrgð á verkefnum um barnavernd og heill þeirra, um börn og fjölskyldumál og félagsmál til hinna og þessara ráðherra. Eins og ég sagði fékk ég þær upplýsingar rétt í þessu hjá barnaverndarráðherra að hann væri aðeins með barnaverndarmálin, ekki barnamálin. Ég þarf að skoða það nánar.

Það kviknaði hugmynd þar sem ég sat í stólnum mínum áðan og hugsaði hvernig ég ætlaði að nálgast þessa ræðu, því að hún breyttist. Þá hugsaði ég: Ég þarf að fá þetta skýrt. Hver getur sagt mér það? Kannski er það forseti Íslands sjálfur. Það er hann sem útdeilir þeim verkefnum. Þó að það sé að frumkvæði forsætisráðherra er ábyrgðin hjá forseta Íslands. Ég verð að fá þessar upplýsingar og ég mun hafa samband við hann og fá það skýrt. Við erum að tala um að eins árs barn og önnur börn á Íslandi hafa ekki dvalarleyfi þótt foreldrar þeirra hafi það. Börnin eru þar af leiðandi föst ofan í þeirri holu að hafa ekki sömu réttindi og önnur börn í landinu. Samt segja lögin, og UNICEF hefur sagt mér það, að það sé algerlega óháð lagalegri stöðu barnsins. Ef barn er innan landamæra okkar ber (Forseti hringir.) okkur skylda til að vernda það og veita því jafna þjónustu. Næsta skref hjá mér er að tala við forsetann og fá að vita hver ber raunverulega ábyrgð á barninu sem er fast ofan í holunni.