149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Við Íslendingar erum stolt þjóð og notum oft góða stöðu okkar á ýmsum listum sem dæmi um hvað við séum frábær. Við erum t.d. meðal hamingjusömustu þjóða í heimi þótt við séum reyndar fallin í 4. sæti þar. Þá trónum við á listanum yfir þær þjóðir sem eru með hreinustu orkuna enda er nánast 100% af orkunni sem við notum endurnýjanleg.

Nú hefur bæst við enn eitt fyrsta sætið sem við hljótum að vera stolt af. Í morgun birti Hagstofa Íslands samantekt á losun koltvísýrings frá hagkerfi á einstakling. Þar höfum við Íslendingar náð þeim frábæra árangri að menga mest allra í Evrópu en losun á Íslandi hefur aukist m.a. vegna aukins flugreksturs og skipaflutninga frá árinu 2012. Það er ekki bara hægt að kenna þeim um. Staðreyndin er líka að losun á einstakling frá íslenskum heimilum hefur verið hærri en hjá hinum Norðurlöndunum frá árinu 2008 og hefur losunin aukist hjá okkur á sama tíma og hún er að dragast saman á hinum Norðurlöndunum og er gildi okkar fyrir 2016 enn hærra en það var fyrir árið 1995.

Herra forseti. Eins og kom fram í Kveik, fréttaskýringarþætti RÚV í gærkvöldi og við höfum ítrekað rætt hér þá verðum við að fara að gera betur í loftslagsmálum. Það kallar allt á okkur. Á fundi Samtaka iðnaðarins í morgun um atvinnustefnu kom einmitt fram að umhverfis- og loftslagsmál eru eitt af stærstu viðfangsefnum okkar í nútímanum og framtíðar okkar. Við þekkjum vel leiðirnar sem eru teiknaðar upp; menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Við þurfum að styrkja nýsköpun í grænni tækni, efla grænu orkuframleiðslu okkar og auka innlenda framleiðslu. Þar þarf að gera mun betur eins og má sjá í nýlegum fréttum af grænmetisframleiðendur sem eru að sligast undan flutningskostnaði raforku vegna mjög rýrnandi niðurgreiðslna ríkisins.

Herra forseti. Við vitum vel hvað þarf að gera en því miður er ekki að sjá, hvorki í fjárlögum 2019 né samgönguáætlun, að verið sé að bregðast við. Við höfum enn tækifæri til að breyta því og ég skora enn og aftur á ríkisstjórnina að breyta því.