149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er ákall úti í samfélaginu í dag. Það er ákall: Hjálpið okkur að útrýma biðlistunum á Vogi. Stjórnvöld, gjörið þið svo vel og komið með fjármagn til að útrýma biðlistunum á Vogi. Fólkið okkar deyr af fíknisjúkdómum á meðan það bíður eftir úrræðum og bíður eftir því að komast inn á Vog. Hugsið ykkur. Hvernig má það vera að 200 millj. kr. standa svo rækilega í stjórnkerfinu, í heilbrigðisráðherra og öllu sem að því lýtur? Það stendur svo harkalega í þeim að þau vilja frekar horfast í augu við að 42 einstaklingar hafa dáið nú á árinu 2018 af völdum ópíóíða og eitrunar vegna lyfja. Hvernig er þetta mögulegt árið 2018? Hvernig er það mögulegt á sama tíma að sami heilbrigðisráðherra skuli vera sátt við að færa ráðuneyti sitt í nýtt húsnæði af því að hún þarf að aðskilja það frá því ráðuneyti sem hún er í í dag og það kostar bara 70 milljónir? En hvenær, virðulegi forseti, hefur eitthvað verið að marka tölur sem hafa verið gefnar upp um kostnað í einhverjum störfum sem ríkið hefur tekið sér fyrir hendur? Ég held bara aldrei.

Nú er verið að tala um að endurnýja bílaflota ráðherranna. Síðast var það gert árin 2014 og 2015, það kostaði 117 millj. kr. Hvað með fólkið? Hvað á það að þýða að vera kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga og setja fólkið í tíunda sæti? Það er löngu orðið tímabært að taka ábyrgð á því sem við erum að gera hér. Fólkið í fyrsta sæti. Annað kvöld eru fulltrúar þjóðarinnar sem eru að berjast fyrir þessum málum, hinir eiginlegu alvörufulltrúar fólksins sem er að glíma við þennan vanda, með sjálfboðavinnu í Háskólabíói. Þeir eru með (Forseti hringir.) ákall, þeir eru með söfnunarátak til að reyna að hjálpa fólkinu sem er á biðlistunum á Vogi. Er þetta hægt, virðulegi forseti? Er þetta hægt? Ég segi: Nei, þetta er ekki hægt. Þetta er óásættanlegt.