149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

orð þingmanns í störfum þingsins -- frumvarp um búvörulög.

[15:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í störfum þingsins áðan sakaði hv. þm. Páll Magnússon annan hv. þingmann, Björn Leví Gunnarsson, m.a. um brigslyrði og fyrir að hafa að sögn þingmannsins þjófkennt annan þingmann. Hv. þingmaður lagði það til við forseta að víta bæri hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fyrir þessa háttsemi.

Hið rétta er að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur sent inn erindi til forsætisnefndar þar sem hann óskar þess að nefndin taki afstöðu til þess hvort hv. þm. Ásmundur Friðriksson hafi brotið gegn reglum forsætisnefndar um starfskostnað þegar hann sóttist eftir óvenjuháum greiðslum fyrir aksturskostnað á liðnum árum.

Þetta er formlega rétt ferli þegar rökstuddur grunur er um óeðlilegar endurgreiðslur starfskostnaðar. Þessu sagði hv. þingmaður frá opinberlega og hefur hann til þess fullt málfrelsi rétt eins og við öll hér.

Rétt ferli til að óska eftir því að forseti víti þingmann væri þá mögulega líka að leita til forsætisnefndar sem getur sagt til um það. Bið ég hv. þingmann líka að virða það við aðra hv. þingmenn að ætli þeir sér að hjóla í þá í störfum þingsins (Forseti hringir.) bjóði þeir þeim að vera til andsvara eins og hefð er fyrir á þessu þingi.