149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

orð þingmanns í störfum þingsins -- frumvarp um búvörulög.

[15:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Fyrir rúmu ári síðan lagði hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fram frumvarp um breytingu á búvörulögum. Svo gerðist það nú í september að hv. þingmaður tilkynnti, eftir samtöl við þingmenn Miðflokksins, nefndasviði þingsins að hann hygðist leggja þetta mál fram aftur ásamt öðrum þingmönnum flokksins.

Í umræðum í þingsal í lok október á þessu ári sagði hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson frá því að von væri á þessu máli. Fáeinum dögum síðar, nú 5. nóvember, birtist svo þingmál, frumvarp um breytingu á búvörulögum, 295. mál, sem er nánast orðrétt frumvarp hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar nema hvað hann er ekki skráður fyrir því.

Þó að við séum að sjálfsögðu fegin að fá stuðningsmenn við þau mál sem við leggjum fram spyr ég: Telur hæstv. forseti að þetta sé eðlileg málsmeðferð hér í þinginu?