149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

orð þingmanns í störfum þingsins -- frumvarp um búvörulög.

[15:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í framhaldi þess sem hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gátu um vil ég bera saman tvo texta fyrir ykkur. Sá fyrri er frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og er úr frumvarpi hans sem hann lagði fram fyrir ári síðan. Í 2. gr. segir:

„Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera samninga sín á milli um samstarf t.a.m. um verkaskiptingu, og hafa með sér annars konar samstarf.“

Í texta hv. Framsóknarþingmannanna segir:

„Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf …“

Seinni hlutinn í texta hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hljóðar svo:

„Leggja skal slíka samninga fyrir ráðherra landbúnaðarmála til upplýsingar.“

Og svo er það texti Framsóknarþingmannanna, sem hljóðar svo:

„Leggja skal upplýsingar um slíka samninga og samstarf fyrir ráðherra til upplýsingar.“

Þetta eru nánast eins textar og einhvers staðar hefði verið sagt að þetta væri ritstuldur.