149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

orð þingmanns í störfum þingsins -- frumvarp um búvörulög.

[15:43]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Allir vildu Lilju kveðið hafa. Varðandi málið sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafði framsögu um í fyrra voru allir frá þingflokki Framsóknarmanna á málinu. Framsóknarflokkurinn átti þetta mál. Ég held að Miðflokkurinn hafi engan einkarétt á 71. gr. sem snýr að mjólkuriðnaðinum og unnið er upp úr.

Þó að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi skipt um kápu held ég að þetta sé framsóknarmál sem við munum halda áfram með. Og þó að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi talað um það í ræðu sagði hv. varaþingmaður Þórarinn Ingi Pétursson einnig í ræðu sinni að við værum að vinna að málinu. Það átti því ekki að koma neinum á óvart. Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir talaði um að þetta hefði verið rætt á þingflokksfundi Miðflokksins. Ég sit ekki þá fundi.