149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

orð þingmanns í störfum þingsins -- frumvarp um búvörulög.

[15:44]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er lukkan yfir mér, ég þarf ekki að sitja þingflokksfundi Miðflokksins og get því ekki sagt ykkur hvað fer fram þar. En hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir fór ágætlega yfir hvernig staðan er. Hér er um að ræða mjög gott framsóknarmál sem þingflokkur Framsóknarflokksins stóð að. Fram hefur komið hvaðan greinin er komin og þetta tel ég mikið og gott mál og fínt að það sé komið fram en svo getum við farið í alls konar slag hér inni og nagg og tuð.

Hæstv. forseti. Ég get alveg tínt til mál sem hv. þingmenn Miðflokksins hafa verið að plokka út af málaskrá sem við Framsóknarmenn teljum okkur eiga. Allt eru það gríðarlega góð mál og gott að fleiri tali fyrir þeim.