149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

orð þingmanns í störfum þingsins -- frumvarp um búvörulög.

[16:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í þetta sinn langar mig að ræða hitt málið sem er hérna til umræðu. [Hlátur í þingsal.] Á 145. þingi, held ég alveg örugglega, lagði ég fram frumvarp um að sveitarstjórnum skyldi ekki lengur vera skylt að veita trúfélögum ókeypis land. Björt framtíð hafði lagt fram samhljóða frumvarp á sama þingi og mér var kunnugt um það en greinargerðin var allt öðruvísi enda frumvarpið einfalt: Út með 5. gr.

Ég ákvað að leggja mitt samt fram vegna þess að ég vildi skilja eftir mig greinargerðina sem mér fannst auðvitað miklu merkilegri hjá mér.

Upp úr þessu varð eðlilega ágreiningur, ég baðst afsökunar og hef síðan tamið mér annað verklag. Það gerðist t.d. nýlega með fyrirspurn um verðtryggingu sem var byggð á fyrirspurn hv. þm. Ólafs Ísleifssonar að í stað þess að leggja mína einfaldlega fram án þess að spyrja kóng eða prest fór ég til hv. þingmanns, við ræddum málin og lögðum hana fram saman.

Hið sama á við um afnám skerðingar ellilífeyris í lögum um almannatryggingar vegna atvinnutekna, það er mál sem Píratar unnu að í kosningabaráttu, skrifuðu greinar um, greindu og kölluðu eftir upplýsingunum sem það mál byggir á. Við fögnum því að það sé lagt fram af öðrum flokki. Þegar allt kemur til alls er þetta alltaf spurning um mannleg samskipti og kurteisi. Það eru engar reglur sem við getum haldið í hérna. Hérna verðum við að finna út úr því hvernig við komum fram hvert við annað í þeim skilningi að leyfa fólki bæði að njóta þess sem það hefur áorkað sjálft og líka að gera okkur grein fyrir því að við erum öll sjálfstæðir þingmenn með okkar eigin sjálfstæða vilja. Þetta fer ekki alltaf vel saman en eina leiðin til þess að gera þetta er að fólk tali saman. Það er ekki hægt að leysa þetta með reglum.