149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

endurskoðendur og endurskoðun.

312. mál
[16:09]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um endurskoðendur og endurskoðun á þingskj. 365, mál nr. 312. Með frumvarpinu eru lögð fram ný heildarlög um endurskoðendur og endurskoðun. Með nýjum heildarlögum er stefnt að því að gera lögin skýrari varðandi kröfur til endurskoðenda, auka gagnsæi og fyrirsjáanleika þeirra krafna sem gilda um endurskoðendur og auka óhæði endurskoðenda og hlutlægni þeirra í verkefnum sem þeir sinna.

Með frumvarpinu er m.a. innleidd Evróputilskipun nr. 2014/56 um breytingu á tilskipun 2006/43 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila, og reglugerð 537/2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum.

Í frumvarpinu er áhersla lögð á að endurskoðendur skuli rækja störf sín í samræmi við góða endurskoðunarvenju og er fjallað nánar um hvað felist í góðri endurskoðunarvenju. Kveðið er ítarlegar á um í frumvarpinu hvernig vinnu endurskoðenda og starfsemi endurskoðunarfyrirtækja skuli háttað. Endurskoðun skal fara fram í endurskoðunarfyrirtæki sem hefur starfsleyfi og er skráð í opinbera endurskoðunarskrá.

Lagt er til að gerðar séu ríkari kröfur á endurskoðunarfyrirtækin, veitingu starfsleyfis og innlögn starfsleyfa. Í frumvarpinu eru gerðar ítarlegri kröfur varðandi óhæði endurskoðenda en óhæði endurskoðandans er ein mikilvægasta stoð í starfi hans. Endurskoðandi þarf að vera óháður viðskiptavini sínum í reynd og ásýnd. Opinbert eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum er styrkt og lagt er til í frumvarpinu að eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum fari til Fjármálaeftirlitsins. Eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum skal vera öflugt og áhættumiðað og eru Fjármálaeftirlitinu fengnar ríkari valdheimildir til að beita viðurlögum með það fyrir augum að hindra og koma í veg fyrir brot gegn gildandi reglum í tengslum við endurskoðun á þjónustu sem endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki veita.

Sérstök áhersla og ríkari kröfur eru gerðar til endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja sem endurskoða einingar tengdar almannahagsmunum og er með frumvarpinu innleidd reglugerð Evrópusambandsins 537/2014, um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum. Vegna þess að einingar tengdar almannahagsmunum hafa umtalsvert vægi í opinberu tilliti, sem kemur til af umfangi og flækjustigi í starfsemi þeirra eða þeirra félaga sem þeir endurskoða, þarf að efla trúverðugleika endurskoðaðra reikningsskila eininga sem tengjast almannahagsmunum. Eru því gerðar ríkari kröfur til endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja sem endurskoða slíkar einingar.

Þar eru m.a. gerðar enn gerðar enn ríkari kröfur til gagnsæis, til almennings og aukins áhættumiðaðs eftirlits með þeim endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

Með tilliti til þess verður að gera breytingar á núverandi eftirliti með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum sem endurskoða einingar tengdar almannahagsmunum. Gagngerar breytingar eru lagðar til á viðurlagaákvæðum laganna og aukin þau úrræði sem Fjármálaeftirlitið hefur til að bregðast við brotum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja á lögum um þá.

Vinnuhópur með fulltrúum frá félagi löggiltra endurskoðenda, endurskoðendaráði og Fjármálaeftirlitinu kom að gerð frumvarpsins. Frumvarpið var sett í samráðsgáttina í lok september til kynningar og umsagnar. Í framhaldinu voru svo gerðar breytingar á frumvarpsdrögunum í samræmi við ábendingar sem bárust. Í frumvarpinu er lagt til að gildistaka laganna verði 1. janúar 2020.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.