149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

314. mál
[16:23]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Af mjög fljótri yfirferð sýnist mér þetta frumvarp geta gert marga góða hluti. En mig langar til að velta einu upp. Tilfellið er að peningaþvætti á heimsvísu er ekki lengur bara að gerast innan einstakra ríkja heldur á það sér stað í sífellt meira mæli yfir landamæri og þá oft í gegnum svokölluð skattaskjól sem eru í rauninni ekki alltaf eiginleg skattaskjól heldur bara með það mikið ógagnsæi að auðvelt er að fela eignir og koma þannig peningum í eitthvert þvætti á þann hátt.

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um að fyrirtækjum sem eru með höfuðstöðvar í löndum sem teljast vera svokölluð skattaskjól eða lágskattaríki, verði gert að greiða ákveðið eftirlitsgjald, vegna þess að það er aukin flækja sem tengist því að fylgjast með starfsemi þessara fyrirtækja.

Mig langar til að spyrja dómsmálaráðherra hvort einhver rök séu gegn því að taka upp svipaða nálgun í þeim tilfellum þegar aðilar á Íslandi, sem eru eftirlitsskyldir samkvæmt þessu frumvarpi, eru með einhvers konar starfsemi í þessum lágskattaríkjum eða skattaskjólum eða ógagnsæju ríkjum eða ríkjum sem eru á lista yfir áhættusöm ríki sem ráðherrann nefndi. Hvort við gætum tekið upp einhverja slíka nálgun bæði til þess að letja til slíkrar starfsemi og minnka áhættuna sem henni fylgir, en jafnframt að fjármagna það aukna eftirlit sem er raunverulega aðkallandi þegar um slíka aðila er að ræða.