149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

314. mál
[16:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér datt líka í hug varðandi þá fyrirspurn sem kom í fyrra andsvari hv. þingmanns, að þegar menn eru að hugleiða að skattleggja einhverjar höfuðstöðvar eða fyrirtæki sem eru með höfuðstöðvar í einhverjum öðrum löndum tengist það líka skattalegri heimilisfesti. Ég er ekki viss um að gangi upp að eitt ríki hafi forræði á því að setja eitthvert gjald á einhver fyrirtæki sem eru með heimilisfesti annars staðar.

En allt að einu, hv. þingmaður víkur líka að mögulegu umfangi peningaþvættis, eða því sem þetta frumvarp lýtur að hér á landi. Menn hafa metið það sem svo að engin ástæða sé til að ætla að umfangið á Íslandi sé eitthvað minna eða miklu meira en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Það eru engar tölur til um að það og væri kannski frekar hægt að færa fyrir því rök að það væri eitthvað minna hér en annars staðar á Norðurlöndunum. En það er ómögulegt að fullyrða nokkuð um það.

Ég vil nefna það líka að í tengslum við þessa löggjöf, af því að þetta er ekki löggjöfin sem grípur öll tilvik, að í kjölfarið á þessu frumvarpi, verði það að lögum, þarf að endurskoða margar lagabálka sem heyra undir nokkur ráðuneyti a.m.k. Ég veit t.d. að í atvinnuvegaráðuneytinu er hafinn undirbúningur að löggjöf sem lýtur að raunverulegum eigendum. Það skiptir máli. Ég vil nefna það í lokin á þessu andsvari að málinu er ekki lokið. Þetta er ekki eina löggjöfin um varnir gegn peningaþvætti á Íslandi heldur þarf að skoða mjög marga lagabálka með hliðsjón af þessu frumvarpi, sem vonandi verður að lögum.