149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

314. mál
[16:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eftir að hafa skoðað frumvarpið mjög lauslega sýnist mér það vera til mikilla bóta. Auðvitað eigum við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd eftir að fara vandlega í gegnum það og spyrja spurninga sem gestir hafa þá kannski undirbúið sig fyrir að veita svör við.

Mig langar samt til að spyrja hæstv. ráðherra út í úttekt alþjóðlega framkvæmdahópsins sem hér er skammstafaður FATF og lauk í febrúar núna á þessu ári. Sú úttekt leiddi til alls konar athugasemda og sýndi fram á ýmsa veikleika. Að einhverju leyti er hér brugðist við þeim.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær var síðasta úttekt gerð? Var búið að gera aðra úttekt? Voru þá athugasemdir sem ekki var brugðist við? Hvernig er staðan á því? Aðeins er talað um þá úttekt sem hófst á árinu 2017 og lauk núna í febrúar 2018 og þar sem settar voru fram svo margar alvarlegar athugasemdir og tekið fram í greinargerð með frumvarpinu að Ísland væri nú í eftirfylgni hjá þessum hópi.