aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Virðulegur forseti. Sú úttekt sem vísað er til í greinargerð með frumvarpinu og lauk fyrr á þessu ári var þriðja úttektin sem gerð er á íslensku regluverki að þessu leyti. Önnur úttektin, sú sem gerð var þar á undan, var gerð 2006. Ísland hefur verið að vinna sig í gegnum þau tilmæli sem eru afrakstur þeirrar úttektar. Það er kannski ekki alveg sanngjarnt að bera saman réttarástandið 2006 og og í dag. Bæði hefur löggjöfin tekið stakkaskiptum og aðferðafræðin líka við þessar úttektir. Við höfum smám saman verið að fylgja þeirri þróun sem verið hefur í löndunum í kringum okkur í Evrópu.
Það er heilmikil þróun í þessu. Ég nefni sem dæmi, og eins og fram kemur í greinargerðinni, að við erum hér t.d. að innleiða þriðju peningaþvættistilskipunina, eða kannski fjórðu, a.m.k. tilskipun frá 2015, en einnig tilskipun sem samþykkt var í sumar hjá Evrópusambandinu. Hún var einmitt sett til að bæta úr tilskipuninni frá 2015. Með því sjáum við að það er stöðugt verið að bregðast við löggjöfinni og engin ástæða til að ætla annað en að það þurfi að gera það stöðugt. Enda er þetta málaflokkur, peningaþvætti, brotastarfsemi sem tekur trúlega mjög örum breytingum og reynir alltaf að finna sér farveg fram hjá gildandi reglum.
Það er kannski ekki við öðru að búast en að stjórnvöld verði alltaf í öllum ríkjum skrefinu á eftir. En það er mikilvægt að sýna fram á að menn ætli sér að vera a.m.k. samstiga þeim sem hafa einbeittan brotavilja í þessum málaflokki.