149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

314. mál
[16:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjárþörfin og mannaflaþörfin á að hafi verið metin við gerð frumvarpsins. Þar er sérstaklega tilgreind fjölgun á sérstakri peningaþvættisskrifstofu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Og ríkisskattstjóri mun þurfa að fjölga hjá sér.

Eins og ég rakti í framsöguræðu minni hefur eftirliti verið komið fyrir hjá nokkrum aðilum sem nú er gert ráð fyrir að færist allt yfir til ríkisskattstjóra. Þessi mál voru vegin og metin við vinnslu frumvarpsins en þetta varð niðurstaðan á endanum. Það kann því að vera að einhverjar leiðréttingar þurfi að gera við 2. umr. fjárlaga hvað það varðar.

Við áttum okkur alveg á því að þetta kallar á fjölgun, einkum og sér í lagi verður það hjá lögreglunni og greiningardeild hjá héraðssaksóknara. Menn verða bara að horfast í augu við það. Gert er ráð fyrir því og hefur þegar verið fjölgað hjá lögreglunni í þessum tilgangi og héraðssaksóknara.

Við áttum okkur á því að það þarf líka að fjölga hjá ríkisskattstjóra.

Allt kostar þetta pening en þetta er alveg óumflýjanlegt eins og við höfum metið það. Svo þarf að meta reynsluna af þessu, hvort gera þurfi enn betur eða færa til einhvers konar eftirlit á milli stofnana. Þá verður það bara gert.