149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

náttúrustofur.

29. mál
[16:53]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða þingsályktunartillögu sem snýr að því að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að koma á fót starfshópi til að meta reynsluna af starfi náttúrustofa og kanna hvort hagkvæmt sé að náttúrustofur taki formlega að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum.

Nú eru starfandi átta náttúrustofur um landið. Sú fyrsta leit dagsins ljós 1995 og sú áttunda 2013. Þær starfa sem alhliða rannsókna- og þjónustustofnun í náttúrufræðum, hver í sínum landshluta. Starfsemin byggir í senn á sérfræðiþekkingu starfsmanna og sérstöðu hvers svæðis. Frumkvæði og sterk tengsl við nærumhverfið eru á meðal þeirra þátta. Auk þess er gott og náið samstarf náttúrustofa landið um kring og fer vaxandi. Í því fólginn styrkur sem gerir þeim m.a. kleift að stunda sameiginlegar rannsóknir í rauntíma.

Með þessu býr í náttúrustofum mikil þekking sem byggst hefur upp á tveimur áratugum og er byggð út frá því hlutverki þeirra að varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar, veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og ekki síst að annast almennt eftirlit með náttúru landsins með gagnasöfnun, fræðslu, ráðgjöf, þjónustu og eftirliti. Þær hafa líka sérhæft sig í sínu landsvæði og eru því mjög dýrmætar. Starfsemi þeirra spannar allt það sem ég hef áður talið og líka fuglalíf og dýralíf, fornleifarannsóknir, fiskeldi og rannsóknir á sjávarlífi og þær hafa ýmis önnur verkefni. Þær hafa t.d. hafa tekið að sér landmerkingar á örnefnaskrá og mætti fleira telja, enda hafa þær sérhæft sig á mismunandi sviðum. Allt eru þetta verkefni sem hafa mikilvægt hlutverk til verndunar á lífríki landsins bæði til sjávar og sveita.

Í sáttmála núverandi ríkisstjórnar er lögð mikil áhersla á umhverfis- og loftslagsmál og má segja að náttúruvernd sé þráðurinn sem sáttmálinn byggir á í víðu samhengi. Meginmarkmiðið er að hlúa að sterku samfélagi, umhverfi og loftslagi, nýsköpun og rannsóknum. Allt eru þetta þættir sem byggja undir hagsæld þjóðarinnar og skipta einnig sköpum á alþjóðavettvangi.

Náttúra Íslands hefur nokkra sérstöðu. Hún er í vörn vegna ágangs bæði manna og náttúruafla. Því hafa vöktun og rannsóknir á náttúru landsins aldrei verið mikilvægari en nú.

Nokkur samdráttur hefur verið í fjárframlögum til náttúrustofa undanfarinn áratug eða frá hruni. Þær hafa þó sniðið sér stakk eftir vexti en það væri í takt við stefnu stjórnvalda nú að efla starfsemi þeirra.

Virðulegi forseti. Starfsemi náttúrustofa styður líka við nýsamþykkta byggðaáætlun sem var samþykkt hér í vor. Fyrst heyrðu náttúrustofurnar undir umhverfisráðuneytið en sveitarfélögin hafa tekið yfir eignarhaldið á þeim. Það sýnir mikilvægi þeirra í hugum nærsamfélagsins. Í byggðaáætlun má m.a. finna markmið um að auka rannsóknavirkni, vísindastarfsemi og nýsköpun á landsbyggðinni og stutt verði við sjálfbæra þróun byggða um allt land. Þá skal náttúruvernd stuðla að eflingu byggða, eins og segir þar, með leyfi forseta:

„Gæði uppbyggingar innviða verði aukin, dregið úr hættu á ónauðsynlegu raski og fjármagn nýtt betur með því að auka fagþekkingu á sviði hönnunar innviða í náttúrunni þannig að þeir falli sem best að landslagi og stuðli að jákvæðri upplifun gesta. Stutt verði við verkefni sem samræmast stefnu landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.“

Þarna koma náttúrustofurnar sterkt inn. Þær hafa undirbúið jarðveginn með ýmsum rannsóknum og gögnum sem þar er að finna.

Virðulegur forseti. Stefnu núverandi stjórnvalda ber alla að sama brunni og snertir hlutverk náttúrustofa um land allt. Því tek ég heils hugar undir þessa þingsályktunartillögu og tel að með samþykkt hennar séum við að ýta undir stefnu stjórnvalda um verndun náttúru landsins.