149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:14]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir þessa framsögu og þingsályktunartillöguna, sem mér finnst að öllu leyti mjög áhugaverð. Ég held að það sé til mikils að vinna að breikka íslenskt skólakerfi. Ég hjó eftir því í skýrslu sem ég var að renna yfir um lýðháskóla að mikilvægi þess að breikka kennsluhætti er almennt viðurkennt. Hér segir, með leyfi forseta:

„Lýðháskólarnir hafa verið taldir til öflugasta og sjálfstæðasta framlags Norðurlandanna á sviði menntunar og fullorðinsfræðslu. Í menntavísindum hins vestræna heims er vísað til norrænna lýðháskóla sem fyrirmyndar sem skólakerfið gjörvallt ætti að horfa til.“

Mér finnst þetta mjög áhugavert. En ég kem kannski fyrst og fremst hér upp til að spyrja hv. þingmann aðeins út í það sem hann nefndi, þ.e. að við erum þó með í dag með tvo sprota, skulum við að segja, lýðháskólasprota, þ.e. LungA fyrir austan og svo nýlega stofnuðu öflugir Vestfirðingar skóla á Flateyri.

Ég hygg að það sé mjög mikilvægt að treysta fjárhagslegan grunn og tilvist þessara skóla. Á sama tíma og mér finnst þingsályktunartillagan mjög áhugaverð þá óttast ég líka að við förum af stað á of mörgum stöðum með sprota án þess að vera búin að tryggja umgjörðina.

Eitt er að tryggja lagalegan grunn skólanna sem ég held að sé mikilvægt og gott til þess að vita að hæstv. menntamálaráðherra muni leggja fram frumvarp þar að lútandi fljótlega, en hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér kostnaðarþátttöku ríkisins þegar kemur að lýðháskólum eða lýðskólum?