149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur spurninguna. Já, þetta eru atriði sem við eigum að velta fyrir okkur, hvort við eigum að kenna á öðru tungumáli. Ég held að við verðum alltaf að virða hugmyndafræðina, þessa upprunalegu hugmyndafræði lýðháskóla sem er frelsi og að hann sé fyrir alla. Ég sæi það sem mikinn kost ef erlendir stúdentar myndu sækja hingað, alveg eins og við höfum í gegnum tíðina sótt mikið til Norðurlandanna og sérstaklega Danmerkur í slíka skóla þegar við vitum ekki í hvor fótinn við eigum að stíga varðandi framhaldið, jafnvel eftir menntaskóla. Það hefur reynst mjög vel þannig að ég styð það. Það er bara í anda hugmyndafræðinnar og anda þeirrar menntaskýrslu sem kom út 2012 þar sem bent var á að það væri ákveðið gat í okkar menntakerfi þegar kemur að þeim áherslum sem við finnum í lýðháskólum.