149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hið áhugaverðasta mál sem hv. þm. Willum Þór Þórsson mælti fyrir, stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ég er sammála hv. þingmanni, ég held að þetta form, lýðskólaformið, sé mjög gott inn í menntaflóru okkar. Ég mun skoða málið með mjög opnum huga í allsherjar- og menntamálanefnd, en held að það sé líka mjög mikilvægt að skoða þetta í heildarsamhengi við boðað frumvarp frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Mig langar að geta skoðað þetta mál vel og gaumgæfilega í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þess vegna ætla ég að spyrja út í það sem fjallað er um í greinargerðinni. Þar segir að þetta sé leið til að tryggja að ýmis verkefni stöðvist ekki heldur geti haldið áfram í óbreyttri mynd. Þar er m.a. fjallað um sumarbúðir Íþróttasambands fatlaðra og að fram hafi komið eindreginn vilji hjá forsvarsmönnum sambandsins til að halda búðunum starfræktum áfram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í þetta. Hvernig sér hann fyrir sér þetta starf og hvernig það verði hluti af lýðháskólanum? Það er í rauninni ekkert meira fjallað um þetta hérna. Hefur þetta verið útfært eða hugsað eitthvað meira? Mér finnst áhugavert að skoða þetta áfram (Forseti hringir.) en vantar aðeins meiri upplýsingar til að geta tekið með mér inn í nefndarstarfið.