149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, meðflutningsmanni mínum á málinu, þessa spurningu. Jú, það er mikilvægt að velta þessu fyrir sér. Ég held að svarið hafi kannski komið fram í máli hv. þingmanns, það að nemendur héðan hafa verið duglegir að sækja skóla erlendis. Íþróttalýðháskólar í Danmörku hafa sérstaklega verið mjög vinsælir. Ungmennafélag Íslands hefur mikinn áhuga á því að starfrækja slíkan skóla hér, einmitt vegna þess að það er mikill áhugi á því hér að sækja slíka skóla erlendis og þeir eru vinsælir. Það eru um 45 lýðháskólar í Danmörku og margir sem leggja áherslu á íþróttir, útivist og lýðheilsutengt nám. Þær upplýsingar sem ég hef, þá frá Ungmennafélagi Íslands, benda til að óþarfi sé að hræðast að eftirspurn verði ekki eftir náminu.

Ég held að blanda af nemendum héðan sem hefðu þá tækifæri til að velja á milli ólíkra skóla með ólíkar áherslur hér sem og erlendis þannig að góð blanda væri í báðar áttir væri æskileg. Ég hræðist það ekki að ekki verði eftirspurn í þessa skóla miðað við áhugann sem hefur verið fyrir slíku skólaformi hingað til. Það má líka velta fyrir sér, af því að við erum stutt á veg komin með þessa tvo skóla sem eru þegar starfræktir, hvort við verðum með of marga skóla. Ég held ekki. Það eru mjög ólíkar áherslur hjá öllum þessum skólum. Ég held að það sé full þörf á (Forseti hringir.) einum íþróttatengdum lýðháskóla.