149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langaði aðeins að koma inn á málið um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Það hefur margt komið fram, ýmsar vangaveltur um skóla af þeim toga, nafngiftina o.s.frv. Það má eflaust lengi deila um þetta og ástæða er til þess að ljúka þeirri vegferð sem samþykkt var á þingi þegar Björt framtíð og þáverandi hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir lögðu fram mál um að sett yrði lagaumgjörð utan um slíka skóla.

Mér þykir þetta afskaplega gott skólaform. Ég hef nokkrum sinnum komið í skólann LungA á Seyðisfirði þar sem farið hefur verið í magnað framtak og mikið hugsjónastarf verið unnið í gegnum tíðina. En vegna þess að við erum ekki búin að búa til lagaumgjörð um skólastarfið þarft sífellt að eiga samskipti við löggjafarvaldið, reyna að ná í styrki og annað slíkt, í staðinn fyrir að við ákveðum hvernig við ætlum hafa skólastarfið.

Eins og hefur komið fram í umræðunni er þetta mikilvægt, fjölbreytnin í skólaflórunni er mikilvæg. Fram kemur í skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 2012 sem heitir Allir stundi nám og vinnu við sitt hæfi, með leyfi forseta:

„Auka þarf fjölbreytni kennsluaðferða og nútímavæða framsetningu námsefnis í grunn- og framhaldsskóla til að mæta ólíkum þörfum og væntingum nemenda og glæða og viðhalda áhuga þeirra. Mikilvægt er að örva nemendur í verkefnabundnu og lausnamiðuðu námi og ýta undir frumkvæði, gagnrýna hugsun og skapandi starf nemenda. Nýta þarf nýja miðla sem nemendur nota utan skóla til að glæða áhuga þeirra á náminu og auka fjölþætt verkefnaskil t.d. á formi margmiðlunar.“

Auðvitað á þetta orðið við um ýmsa framhaldsskóla dagsins í dag og segja má að lýðháskólinn sem hefur verið starfræktur, LungA, hafi kannski meira verið einhvers staðar á milli framhaldsskóla og háskóla og þess vegna ekki verið gerð almennileg tilraun til að ná utan um hann.

Þeir aðilar sem hafa komið að lýðháskólum hér á landi, bæði á Flateyri og fyrir austan, hafa ásamt ráðuneytinu lagst í að smíða utan um þá lagaumgjörð, sem ég hef aðeins gluggað í. Í rauninni ætti ráðherra ekkert að vera að vanbúnaði að klára það mál þannig að við getum tekið utan um stofnun lýðháskóla á Laugarvatni innan lagaramma, þannig fer það líka á fjárlög.

Ég nefndi áðan að þótt styrkur sé í því að hafa fjölbreytni í skólastarfi og gerð af skólum þá er skapandi skólastarf í mjög mörgum framhaldsskólum. Ég kem úr einum slíkum, Menntaskólanum á Tröllaskaga, og þreytist seint á að segja frá honum. Þar er um að ræða þriggja ára nám þar sem ekki er mikið um stórkostleg próf og annað slíkt, skólastarfið gríðarlega fjölbreytt og mikið um skapandi vinnu og tækifæri þar inni. Þeim nemendum sem hafa lokið námi í þeim skóla og svo háskólanámi hefur gengið ágætlega þrátt fyrir þriggja ára nám, en skólinn var stofnaður þannig. Þrátt fyrir að nemendur skólans hafi ekki þurft að þreyta ægilega löng próf í öllum fögum hefur þeim gengið ágætlega í því sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur, þeir sem hafa lokið námi þaðan og síðan lokið háskólanámi.

Það er mikilvægt að muna að formin eru misjöfn. Lýðháskólar hafa haft svipaða umgjörð, mikil tengsl við atvinnulífið og gjarnan þau sveitarfélög sem þeir eru í. Það má segja að við höfum tekið fyrirkomulagið í Danmörku okkur til fyrirmyndar, þaðan þekkjum við formið best og heyrðum fyrst af því, en lagamálin hafa staðið í vegi fyrir okkur.

Ég þarf ekkert að hafa óskaplega mörg orð um þetta en mér er mikið í mun að fjölbreytni nái fram að ganga í skólastarfi. Þetta er, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði áðan, tækifæri fyrir marga sem kannski hafa ekki fundið sig annars staðar, fyrir fólk á ólíkum aldri. Þeir nemendur sem ég hef talað við, t.d. sem hafa sótt nám í LungA á Seyðisfirði, segja bara: Það bjargaði lífi mínu að fá þetta tækifæri, að vera ekki atvinnulaus og loka mig á bak við tölvu eða gera eitthvað annað miður gott. Þetta var leið sem ég fann og hefur reynst mér vel.

Fólk upplifir samfélag þarna, því að það sér um sig. Þetta er heimili, bara stærra heimili en það kemur gjarnan frá.

Þetta nær yfir óskaplega margt þannig að ég styð hugmyndina eindregið og vona svo sannarlega að hún ýti við hæstv. ráðherra svo að hann taki málið fyrir. Ég vona líka að allsherjar- og menntamálanefnd, sem fær málið til sín, kalli eftir því að fá að vita stöðuna á lagaumhverfinu og hvort megi eigi von á því, það er ekki á þingmálaskrá núna, næsta haust svo að menn þurfi ekki að fara bónleiðir til fjárlaganefndar á hverju ári, bæði í tilviki Flateyrarskóla og LungA. Ég sé í tillögunni að talað er um að gera hlutina í réttri röð og að lagaumhverfi verði til.

Ég fagna því að við erum með framsýn og tökum það í fangið að reyna að stofna fleiri lýðháskóla. Framtakið á Flateyri í haust er augljóslega komið til að vera og hefur nú þegar skilað miklu, bæði fyrir sveitarfélög og þá sem hafa sótt um og eru nemendur þar núna. Maður sér fregnir af því fólki sem líkar dvölin ákaflega vel. Ég held að þetta sé eitthvað sem við eigum frekar að gera meira af en minna.