149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[18:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla eins og fleiri þingmenn sem hafa tekið til máls um þetta ágæta mál að fagna því og tala um mikilvægi þess fjölbreytileika sem ég held að við þurfum að hafa í okkar menntastefnu og því framboði sem við höfum á mismunandi kostum til menntunar. Ég held að það sé líka mikilvægt að hugsa til framtíðar í þessum efnum. Við heyrum mjög gjarnan að við séum í dag að mennta börnin okkar til starfa sem við kannski vitum ekki hver eru. Ég held að flestum beri saman um það í dag að við þurfum fyrst og fremst að auka færni fólks en ekki utanbókarlærdóm eða eitthvað slíkt eins og menntakerfi okkar fyrr á tíð gekk oft út á. Þá er kannski lykillinn þegar við tölum um fjórðu iðnbyltinguna og allt það sem kann að vera að breytast á næstu árum að huga að því að það er kannski fyrst og fremst færni í samskiptum sem mun skipta okkur máli í framtíðinni.

Ég var á fínum morgunfundi hjá Samtökum iðnaðarins í dag þar sem rætt var um atvinnustefnuna og augljóslega er ekki hægt að ræða atvinnustefnu Íslendinga öðruvísi en að koma inn á menntamál því að þetta eru nátengd atriði. Þar var einmitt horft til þess að óæskilega stórt hlutfall Íslendinga hefur ekki farið í meira en grunnnám eða grunnskóla. Þess vegna tek ég undir það sem komið hefur fram hjá fleirum að lýðháskólar geti einmitt verið tækifæri fyrir fólk sem ekki hefur fundið sig innan hins formlega menntakerfis en ég held reyndar líka að þeir séu tækifæri fyrir miklu fleiri.

Hæstv. forsætisráðherra lét þau orð falla á þessum fundi í morgun þegar var verið að ræða þessi mál, um fjórðu iðnbyltinguna og framtíð starfa, að samkvæmt einhverri norskri rannsókn væri búið að finna það út að einu störfin sem myndu örugglega verða til í framtíðinni væru hárgreiðsla og jógakennsla. Ég veit ekki hvort það sé alveg rétt en ég held alla vega að þetta snúist fyrst og fremst um samskipti.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson, fyrsti flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu, ræddi það að fyrirhugað frumvarp sem við höfum kannski beðið eftir í svolítinn tíma varðandi lýðháskóla ber nafnið lýðskóli. Ég velti því fyrir mér hvort þá sé verið að opna þetta skólastig eða þessa hugmyndafræði upp á að hún flæði kannski aðeins á milli skólastiga. Kannski er hugmyndin á bak við lýðskóla ekki að hann sé á ákveðnu stigi þannig að við þurfum kannski að taka okkur aðeins út úr þeirri umræðu.

Þá langar mig að nefna að það er líka til samþykkt þingsályktunartillaga frá Vestnorræna ráðinu um eftirskóla, eins og það er orðað. Þá er verið að vísa í danska fyrirmynd þar sem er um að ræða einhvers konar lýðframhaldsskóla, okkur er alltaf tamt að setja þessa skóla inn í skólastig. Þingsályktunartillagan gekk sem sagt út á það að fela menntamálaráðuneytinu að kanna möguleika fyrir slíku og það hefur verið mikill áhugi hjá félögum okkar í Færeyjum og Grænlandi að byggja upp slíka skóla, sérstaklega hafa Grænlendingarnir haft áhuga á þessu. Mér skilst að mörg grænlensk ungmenni leiti sérstaklega til Danmerkur í þessa eftirskóla sem eru þar vinsælir eins og lýðháskólarnir hafa verið. Það svar sem okkur í Vestnorræna ráðinu barst frá menntamálaráðuneytinu var svolítið á þá leið að það væri frekar verið að reyna að einfalda skólakerfið hér á landi heldur en hitt þannig að þeim hugnaðist þessi hugmynd ekki sérstaklega vel.

Mig langar að nefna þetta hér því að ég hefði mikinn áhuga á því að það kæmi til tals í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þegar við ræðum um lýðskóla hvort hægt sé að horfa til þessarar þingsályktunartillögu um eftirskóla. Það kemur kannski líka inn á annan þátt sem ég fór inn á í andsvörum við frummælanda varðandi tungumálin og möguleika eins og ég orðaði það á einhvers konar útflutningi á menntun þegar við horfum til samstarfs við aðrar þjóðir. Kannski er ástæða til þess að á einhverjum brautum eða sviðum eða í einhverjum námskeiðum innan slíkra skóla sé boðið upp á kennslu á erlendu tungumáli til að opna möguleikana og fleiri geti sótt skólann.

Þá kem ég inn á annan þátt sem ég nefndi í andsvörum. Ég hygg að allir þeir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls undir þessum lið hafi dásamað þá hugmyndafræði sem er að baki lýðháskóla. Ég held að við séum öll sammála um að þetta sé býsna skynsamlegt og við viljum gjarnan að ungt fólk finni sér einhvern farveg. En í grunninn snýst þetta auðvitað alltaf um kostnað og hver kostnaðarþátttaka ríkisins á að vera þegar við ræðum hugmyndir um slíka skóla. Þess vegna held ég að það sé óhjákvæmilegt að velta því upp þegar þessi þingsályktunartillaga er tekin til umfjöllunar í nefndinni.

Ég hygg að það sé líka mjög mikilvægt að fyrirhugað frumvarp um lýðskóla komi fram og þar sé tekið á því með öruggum hætti hvernig ríkisvaldið ætli að koma að kostnaði þessara skóla. Allir hafa dásamað og talað um tækifærin sem í þessu felast og ég er algerlega sammála því. Ég held að það séu gríðarlega mikil tækifæri í fjölbreyttum menntastofnunum hér á landi og lýðskólarnir falla svo sannarlega þar undir. Ég tel líka rétt að ríkið taki þátt í menntuninni en það er auðvitað eðlilegt í þeim efnum að það sé einhver rammi. Á sama tíma og við opnum fyrir nýja skóla með nýja hugmyndafræði þurfum við að spyrja hvort við séum þá að taka frá öðrum skólum eða hvernig þessu eigi að vera háttað. Það hefur mátt sjá ofboðslega spennandi einstaklingsframtak á sviði lýðháskóla bæði fyrir austan og vestan. Þar hafa kraftmiklir einstaklingar fengið stuðning frá sveitarfélögum og fyrirtækjum við uppbygginguna, sem er gott, en ég held að við getum ekki horft til þess að þetta séu aðilar með einhvers konar sprotastarfsemi, sem þetta vissulega er og hefur verið, öðruvísi en að þeir fái eitthvert fast land undir fótum og það liggi svolítið ljóst fyrir með hvaða hætti ríkið ætlar að taka þátt í þessum kostnaði. Við getum ekki ætlast til þess að svona kraftmiklir aðilar sem hafa þessar hugmyndir þurfi að koma hér á hverju ári með einhver bænabréf til fjárlaganefndar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi umræða verði tekin jafnhliða og við reynum að komast að einhverri sátt í kringum það hvernig því ætti að vera háttað.

Þá vil ég líka nefna það sem ég hef reyndar líka velt fyrir mér í tengslum við þá lýðháskóla sem þegar eru starfandi fyrir utan þennan sem hér um ræðir á Laugarvatni hvort þetta sé ekki líka byggðamál. Það er náttúrlega hægt að segja sem svo að byggðamál eru alltumlykjandi og menntamál eru auðvitað stór hluti af þeim. Þegar um er að ræða kannski mjög brothættar byggðir og brothætt sveitarfélög, nú vísa ég bara til þess almennt, ekki endilega til þeirrar skilgreiningar sem Byggðastofnun hefur sett upp í kringum það, þá efast ég ekki um að mikilvægi þess að svona stofnun taki til starfa, ég nefni Flateyri í þessu tilfelli eða á Laugarvatni eins og um er rætt í þessari þingsályktunartillögu, það skiptir þessi byggðarlög miklu máli. Því held ég að það megi alveg eins horfa til þess þegar við ræðum byggðaáætlun og það fjármagn sem við setjum í byggðamál hvort þessar stofnanir eða þessir sprotar eigi með einhverjum hætti heima þar undir.

Það skal engan undra að ég fagna mjög þegar kraftmiklir einstaklingar, fyrirtæki eða stofnanir eða félagasamtök hafa áhuga á því að koma að rekstri jafn mikilvægra stofnana og menntastofnanir eru en ég vil ítreka hversu mikilvægt það er að ríkið hafi utan um það einhvern ramma og hann sé sanngjarn þegar kemur að fjárveitingum. Ég leyfi mér í þessari ræðu að nefna t.d. þá stöðu sem Kvikmyndaskólinn er í þar sem einstaklingar hafa byggt upp mjög öflugt nám á mjög afmörkuðu sviði en eru í ákveðnum rekstrarvanda. Það vantar algjörlega stefnu hjá ráðuneytinu í slíkum málum.

Eins og ég sagði áðan í andsvörum þá fagna ég þessari þingsályktunartillögu og mér finnst margt mjög spennandi í þessu. Ég vil bara ítreka að við höfum skýra stefnu í þessum málum þannig að þeir sem koma að slíkum rekstri og slíkri hugmyndafræði viti svolítið að hverju þeir ganga þegar kemur að fjármögnun.