149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég fann mig tilknúinn í ljósi jákvæðrar umræðu um málið að koma upp og þakka fyrir gagnlegar ábendingar um málið frá hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni, bæði í andsvörum við framsöguræðu og svo um málið. Hv. þingmenn komu inn á fjölmörg atriði sem skipta máli um eðli lýðháskóla og marga fleiri punkta sem væri mjög freistandi að draga saman.

Það er kannski efni í aðra ræðu en hv. þm. Karl Gauti Hjaltason nefndi hér að tími væri til kominn að efla Laugarvatn að nýju sem skólasetur. Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Hann nefndi jafnframt að þessi viðbót við íslenska menntakerfið væri ein varða á þeirri leið að koma í veg fyrir brotthvarf. Raunveruleikinn er sá að íslenskir unglingar eru kannski lengur að taka ákvörðun og eru oft á milli vita með ákvörðun um hvað við erum að gera á þessari leið. Þetta nefndu margir aðrir hv. þingmenn.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom hér inn á einkaframtakið. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, hvort sem það eru félagasamtök eins og Ungmennafélag Íslands eða einstaklingar sem hafa frumkvæðiskraftinn og setja svona starfsemi af stað eigum við að virkja það og ýta undir það. Það dregur jafnframt fram það sem kom vel fram í máli allra hv. þingmanna hér, mikilvægi þess að klára almenna lagaumgjörð um lýðháskóla á Íslandi. Alþingi samþykkti árið 2015 þingsályktunartillögu þáverandi hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur þar sem markmiðið var að hér yrði rekstrargrundvöllur tryggður að norrænni fyrirmynd. Það var kjarninn í tillögunni og síðan eru liðin þrjú ár og fólkið þarna úti með allan sinn kraft getur ekki beðið eftir okkur endalaust. Ef þingsályktunartillagan fer svo langt að við samþykkjum hana, sem ég vona, og setjum af stað starfshóp um að stofna lýðháskóla á Laugarvatni þrýstir það á að klára almennu lagaumgjörðina sem er afar mikilvægt.

Hv. þingmenn komu vel inn á eðli og hugmyndafræði lýðháskóla. Í greinargerð með máli Brynhildar Pétursdóttur, þáverandi hv. þingmanns, sem var samþykkt af Alþingi, var komið inn á skýrslu menntamálaráðuneytis frá árinu 2012, Allir stundi nám og vinnu við sitt hæfi, þar sem talað er um að auka þurfi fjölbreytni kennsluaðferða, nútímavæða framsetningu námsefnis, mæta ólíkum þörfum nemenda, glæða áhuga og virkja nemendur á sínum forsendum, glæða frumkvæði og efla gagnrýna hugsun og skapandi starf, nýta nýja miðla og notast við margmiðlunarformið í framsetningu verkefna. Þar er hvergi minnst á lýðháskóla en engu að síður er hér verið að lýsa í raun og veru kjarnanum í hugmyndafræði lýðháskólanna. Ég vildi bara ljúka ræðu minni með því draga þetta fram og þakka öllum hv. þingmönnum fyrir góðar og gagnlegar ábendingar.