149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

31. mál
[18:37]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisframsögu, að mörgu leyti fróðlega og áhugaverða. Sjálfur hef ég verið mikill áhugamaður um fána og önnur þjóðernistákn lengi, frá því ég var í námi við sagnfræði við Háskóla Íslands og fjallaði sérstaklega um þjóðernisvitund og fleiri slík mál. Ég hefði nú kannski stutt hv. þingmann ef hann hefði lagt fram frumvarp um að taka upp hvítbláan, ég er nú hrifnari af þeim fána. En ég hygg að við deilum þeirri skoðun að úr þessu verður ekki aftur snúið með val á þjóðfána, hver sem skoðun okkar á hvítbláanum er.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann örlítið út í skilgreiningu á í það minnsta einu orði í þessu frumvarpi. Hér segir, með leyfi forseta: „Þessa fána skal lýsa upp í skammdeginu.“

Ég gerði mikla flýtileit á internetinu svokallaða að því hvort til væri skilgreining á orðinu skammdegi og fann hana ekki. Ég velti því fyrir mér hvort þetta væri nógu skýrt, hvenær hv. þingmaður og flutningsmenn telji að nauðsynlegt sé að lýsa upp þessa fána, hvort það verði mat hvers og eins umsjónarmanns hvenær skammdegið er hafið eða hvenær er nógu bjart til að slökkva á lýsingum eða hvort það séu einhver ákveðin tímasetning á því sem mér hefur láðst að finna í minni, aftur ítreka ég, fljótaleit.

Svo er hér lagt til að flagga fánanum við embættisbústað forseta Íslands og við skrifstofu hans. Ég velti þeirri spurningu upp við hv. þingmann hvort ekki sé hægt að fara að fordæmi Breta sem eru mikil fánaþjóð og flagga þegar forsetinn er heima.